Almennar fréttir
Sunna Ósk ráðin upplýsingafulltrúi
10. mars 2025
„Erindi Rauða krossins hefur alltaf verið brýnt en sjaldan verið veigameira en einmitt núna,“ segir Sunna Ósk Logadóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi.
Sunna Ósk Logadóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Hún hefur þegar tekið til starfa.
Sunna er landfræðingur að mennt og hefur mikla reynslu af starfi í fjölmiðlum. Hún var blaðamaður og fréttastjóri á Morgunblaðinu og mbl.is í tvo áratugi, blaðamaður á Kjarnanum í tvö ár og nú síðast á Heimildinni í önnur tvö.
Í skrifum sínum hefur hún m.a. lagt áherslu á mannúðar- og umhverfismál og hefur í fjórgang hlotið Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjallanir sínar.

„Rauði krossinn á Íslandi hefur unnið að því í heila öld að bæta líf fólks í viðkvæmri stöðu, bæði hér heima og erlendis,“ segir Sunna. „Félagið hefur alla tíð átt sérstakan stað í hjarta mínu, rétt eins og líklega flestra Íslendinga. Erindi Rauða krossins hefur alltaf verið brýnt en hefur sjaldan verið veigameira en einmitt núna. Þess vegna ákvað ég að tímabært væri að venda mínu kvæði í kross og ganga til liðs við þá mögnuðu hreyfingu sem Rauði krossinn er.“
Að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, teymisstjóra fjáröflunar- og kynningarsviðs Rauða krossins, er ráðning Sunnu mikill happafengur fyrir félagið. „Hún hefur víðtæka reynslu af miðlun upplýsinga og mikla reynslu af vinnu við fjölmiðla sem mun styrkja starf okkar enn frekar. Við hlökkum til samstarfsins og erum viss um að hún muni verða mikilvægur liðsmaður í því að efla sýnileika og skilaboð Rauða krossins í samfélaginu.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.

Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.