Almennar fréttir

Sunna Ósk ráðin upplýsingafulltrúi

10. mars 2025

„Erindi Rauða krossins hefur alltaf verið brýnt en sjaldan verið veigameira en einmitt núna,“ segir Sunna Ósk Logadóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi. 

Sunna Ósk Logadóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Hún hefur þegar tekið til starfa.

Sunna er landfræðingur að mennt og hefur mikla reynslu af starfi í fjölmiðlum. Hún var blaðamaður og fréttastjóri á Morgunblaðinu og mbl.is í tvo áratugi, blaðamaður á Kjarnanum í tvö ár og nú síðast á Heimildinni í önnur tvö.

Í skrifum sínum hefur hún m.a. lagt áherslu á mannúðar- og umhverfismál og hefur í fjórgang hlotið Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjallanir sínar.

„Rauði krossinn á Íslandi hefur unnið að því í heila öld að bæta líf fólks í viðkvæmri stöðu, bæði hér heima og erlendis,“ segir Sunna. „Félagið hefur alla tíð átt sérstakan stað í hjarta mínu, rétt eins og líklega flestra Íslendinga. Erindi Rauða krossins hefur alltaf verið brýnt en hefur sjaldan verið veigameira en einmitt núna. Þess vegna ákvað ég að tímabært væri að venda mínu kvæði í kross og ganga til liðs við þá mögnuðu hreyfingu sem Rauði krossinn er.“

Að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, teymisstjóra fjáröflunar- og kynningarsviðs Rauða krossins, er ráðning Sunnu mikill happafengur fyrir félagið. „Hún hefur víðtæka reynslu af miðlun upplýsinga og mikla reynslu af vinnu við fjölmiðla sem mun styrkja starf okkar enn frekar. Við hlökkum til samstarfsins og erum viss um að hún muni verða mikilvægur liðsmaður í því að efla sýnileika og skilaboð Rauða krossins í samfélaginu.“

Fréttir af starfinu

Fréttayfirlit

Aðalfundur Rauða krossins í Fjarðabyggð

Almennar fréttir 06. mars 2025

Aðalfundur Rauða krossins í Fjarðabyggð verður haldinn fimmtudaginn 13. mars kl. 18:00 í Múlanum - samvinnuhúsi, Bakkavegi 5, 740 Neskaupsstað

Þingmenn skuldbinda sig til að tala fyrir málefnum barna á Alþingi

Almennar fréttir 03. mars 2025

Hópur tíu þingmanna allra flokka á Alþingi skrifuðu undir yfirlýsingu í dag sem fól í sér skuldbindingu um að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í störfum sínum á þinginu og leitast við að tileinka sér barnvæn sjónarmið. Þetta var í sjöunda skiptið sem talsmenn barna á Alþingi eru skipaðir og er verkefnið samstarf Barnaréttindavaktarinnar. Að Barnaréttindavaktinni standa níu félagasamtök sem láta sig réttindi og velferð barna varða. Það eru Barnaheill, Heimili og skóli, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn, Samfés, UMFÍ, UNICEF á Íslandi, Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtök.

Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gera með sér samkomulag á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu

Almennar fréttir 03. mars 2025

Utanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað rammasamning um þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð fyrir 2025-2028. Samningurinn tryggir fyrirsjáanlega fjármögnun og skilvirkari aðstoð. Meðal verkefna sem njóta stuðnings eru fræðsla um kynbundið ofbeldi í Sómalíu, trjárækt í Síerra Leóne og uppbygging á viðbúnaði og viðnámsþrótti samfélaga í Malaví, auk neyðarviðbragða vegna átaka og náttúruhamfara.