Almennar fréttir
Starfsmenn Marel safna fyrir verkefni Rauða krossins í verkefninu Move the Globe
07. september 2021
Á mánudag hófst átakið Move the Globe hjá 6.800 starfsmönnum Marel í 30 löndum. Ætlunin er að ganga hringinn í kringum jörðina til að safna áheitum fyrir alþjóðaverkefni Rauða krossins.
Á mánudag hófst átakið Move the Globe hjá 6.800 starfsmönnum Marel í 30 löndum. Ætlunin er að ganga hringinn í kringum jörðina til að safna áheitum fyrir alþjóðaverkefni Rauða krossins. Marel býður einnig samstarfsaðilum og viðskiptavinum sínum til að taka þátt í þessu verkefni með þeim.
Dagana 6. til 20. september hvetur Marel 6.800 starfsmenn sína í 30 löndum að taka þátt í alþjóðlegu söfnunarátaki þar sem hvert göngu- og/eða hlaupaskref, sundtak, hjóla eða rúlluskautaferð telst með í sérstöku Move the Globe „ferðalagi“ hringinn í kringum hnöttinn, en hringurinn er samtals 40.075 km. Öll hreyfing starfsfólks milli staða telst saman í eitt sameiginlegt ferðalag í kringum hnöttinn og fyrir hvern hring sem starfsmenn ganga gefur Marel 50.000 evrur, eða rúmlega 7.5 milljónir íslenskra króna til verkefna Rauða krossins.
Mynd: B. Mast/ICRC
Söfnunarátakið Move the Globe sameinar þannig alla starfsmenn Marel í einu sameiginlegu markmiði semstuðlar að vellíðan og hvetur starfsfólk til virkni og hreyfingar. Á sama tíma stuðlar átakið að velferð annarra, þar sem allt fé sem Marel gefur, rennur til verkefna Rauða krossins fyrir íbúa og fólk á flótta í norðurhluta Brasilíu.
Kristín S Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi fagnar þessu frábæra frumkvæði Marel. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins er til fyrirmyndar, hér heima sem og á alþjóðavettvangi. Stuðningur Marel mun sannarlega nýtast vel í verkefnum Rauða krossins í norðurhluta Brasilíu, þar sem unnið er að mjög aðkallandi lífsbjargandi verkefnum. Eins og tryggum aðgangi fólks að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir allt að sjö þúsund einstaklinga sem flúið hafa átök og óstöðugleika í Venesúela til norðurhluta Brasilíu sem og íbúa á svæðinu. Kristín segir sérstaklega ánægjulegt að átakið hvetji til virkni og hreyfingar meðal starfsfólks sem fellur vel að áherslum Rauða krossins. Fjölmörg verkefni Rauða krossins innanlands sem og á alþjóðavísu styðja einmitt við bætta lýðheilsu.
Ánægjulegt er að segja frá því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem Marel gefur fjármuni til verkefna Rauða krossins. Í nóvember á síðasta ári tryggði Marel mataröryggi í Suður Súdan með rausnarlegu fjárframlagi að fjárhæð 1 milljón evra, eða rúmlega 150 milljónir íslenskra króna. Slíkur fjárstuðningur fyrirtækis við Rauða krossinn er hár í alþjóðlegum samanburði. Þá hefur Marel styrkt vatnsverkefni Rauða krossins í Malaví um 600 þúsund evrur, eða rúmlega 90 milljónir íslenskra króna og enn bætist í stuðning Marel við verkefni Rauða krossins.
Mynd: B. Mast/ICRC
Áherslur Marel í samfélagslegri ábyrgð falla vel að áherslum í verkefnum Rauða krossins en þær eru meðal annars að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um ekkert hungur og vinna í samstarfi við nærsamfélagið þar sem starfsemi Marel fer fram. Rauði krossinn á Íslandi styður við fjölmörg verkefni á alþjóðavettvangi í berskjölduðustu ríkjum heims þar sem áhersla er lögð á bætta heilbrigðisþjónustu, aðgengi að hreinu vatni og mataröryggi, þar sem hnattræn hlýnun hefur orsakað reglulega mikla þurrka og flóð sem valda uppskerubresti og viðvarandi matarskorti. Í slíkum aðstæðum er jafnan mikill skortur á hreinu vatni og almennu hreinlæti sem getur ýtt undir útbreiðslu á sjúkdómum.
B. Mast/ICRC
Rauði krossinn á Íslandi leggur ríka áherslu á samstarf við fyrirtæki á Íslandi. Fyrr á þessu ári hleypti félagið af stokkunum nýjum sjóði, Sjálfbærnissjóði Rauða krossins Íslandi, hugsaður er til að færa fyrirtækjum nýja leið til efla samfélagslega ábyrgð sína. Hugmyndafræði sjóðsins er að tengja markmið fyrirtækja um sjálfbærni og samfélagsábyrgð við framlög til verkefna Rauða krossins, með því að beita alþjóðlega viðurkenndum stöðlum og mælikvörðum, í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og ESG (umhverfi, samfélag, stjórnhættir). Sjóðurinn hefur þegar vakið alþjóðlega athygli.
Nánari upplýsingar hjá Rauða krossinum veitir Björg Kjartansdóttir sviðsstjóri fjáröflunar og kynningarmála hjá Rauða krossinum bjorgk@redcross.is GSM +354 821 2514 og Lára Hilmarssdóttir hjá Marel global.communications@marel.com GSM +354 825 8422
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.