Almennar fréttir
Spilakort og innlend netspilun til að taka á spilavanda
12. júní 2020
Frá Rauða krossinum, SÁÁ og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, eigendum Íslandsspila.
Spilakort og innlend netspilun til að taka á spilavanda
Vegna umfjöllunar um spilakassa og spilavanda telja eigendur Íslandsspila rétt að benda á þær leiðir sem fyrirtækið hefur lagt til í þessum efnum.
Víða er fullyrt að lausnin á spilavanda einstaklinga sé að banna spilakassa. Freistingarnar verða samt áfram til staðar, ekki síst á erlendum spilasíðum. Netspilun, íþróttaveðmál og getraunir eru ekkert á förum heldur þvert á móti.
Fyrirtækin tvö sem reka spilakassa hér á landi, Íslandsspil og Happdrætti Háskóla Íslands, hafa lengi styrkt meðferð þeirra sem eiga við alvarlegan spilavanda að stríða. En það er hægt að gera meira.
Íslandsspil hafa talað fyrir því að fara sömu leið og hin Norðurlöndin, að tekið verði upp aðgangskort sem hjálpar fólki í spilavanda að takmarka spilaútgjöld. Um er að ræða spilakort sem allir þurfa að hafa til að geta tekið þátt í peningaspilum. Það nýtist til að halda fjárhæð spilunar innan ákveðinna marka sem spilarinn ákveður fyrirfram og getur ekki breytt strax. Hann getur líka lokað fyrir aðganginn. Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa mælt með upptöku á slíku spilakorti.
En Íslandsspil geta ekki byrjað með spilakort eitt og sér. Slíkt kort virkar ekki nema það nái yfir öll peningaspil, einnig löglega innlenda netspilun. Það þarf því líka að ná til spilakassa Happdrættis Háskóla Íslands, lottó og getrauna. Þannig virkar þetta á hinum Norðurlöndunum og ekkert því til fyrirstöðu að svo verði hér á landi.
Miðað við reynsluna á Norðurlöndunum er viðbúið að tekjur af spilakössum muni minnka verulega við upptöku spilakorta. Æskilegt er því að sameina þau tvö fyrirtæki sem reka spilakassa hér á landi. Þannig getur lægri rekstrarkostnaður mildað tekjutapið. Að öðrum kosti standa þessi þrjú mannúðar- og líknarsamtök innan Íslandsspila áfram í samkeppni við ríkisrekið spilafyrirtæki sem ráðstafar hagnaðinum í byggingaframkvæmdir fyrir Háskóla Íslands.
Innlend netspilun í staðinn fyrir erlenda
Samkvæmt gagnaöflunarfyrirtækinu H2 Gambling Capital eru rúmlega 150 erlendar netspilasíður í boði hér á landi. Vinsælustu leikir þeirra eru spilakassar og 45% af allri netspiluninni fer fram í snjallsímum og spjaldtölvum. Árið 2019 spiluðu Íslendingar fyrir 4,5 milljarða króna á tíu vinsælustu erlendu netspilasíðunum. Þetta er svipuð velta og hjá Íslenskri getspá/Lottó. Þá kom nýlega fram að Íslenskar getraunir telja sig tapa 600 milljónum króna á ári til erlendra íþróttaveðmálasíðna.
Erlend netleikjafyrirtæki skila engum tekjum til mannúðar,- íþrótta- eða hjálparstarfs á Íslandi. Þessari þróun má snúa við með því að bjóða upp á innlenda netspilun. Sú leið hefur verið farin á hinum Norðurlöndunum með afar góðum árangri. Innlendir netleikir í hverju landi fyrir sig hafa fengið mjög góðar viðtökur og tekjurnar verða eftir innanlands. Spilakortin taka einnig til þessara innlendu netleikja og þannig skapast heildstætt umhverfi til að hjálpa þeim sem eiga í spilavanda.
Breytingar í þessa veru hafa verið ræddar við opinbera aðila á undanförnum árum. Til þessa hefur lítið þokast. Löngu tímabært er að ráðast í nútímavæðingu þessa markaðar. Þær aðgerðir þurfa að eiga sér stað með nánu samstarfi dómsmálaráðuneytisins og allra þeirra samtaka og stofnana sem starfrækja peningaspil.
Við sem stöndum að Íslandsspilum höfum mikla trú á þeirri lausn sem lýst er hér á undan og farin hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Næsta skref í þessari vegferð er að taka samtalið með dómsmálaráðherra og vonumst við til að það verði sem fyrst.
f.h. Rauða krossins á Íslandi, Sveinn Kristinsson formaður
f.h. SÁÁ, Arnþór Jónsson formaður
f.h. Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Þór Þorsteinsson formaður
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.