Almennar fréttir

Söfnunarfé fyrir Seyðisfjörð – uppbygging samfélags

29. mars 2021

Rauði krossinn þakkar fyrir veittan stuðning í kjölfar aurskriða á Seyðisfirði.

Í lok desember 2020 féllu aurskriður á Seyðisfirði með alvarlegum afleiðingum, skriðurnar tóku með sér mörg hús og eignatjónið er gríðralegt. Mikil mildi er að enginn hafi slasast alvarlega í náttúruhamförunum. Nokkrum sinnum hefur þurft að rýma bæinn auk þess sem rýma þurfti um tíma á Eskifirði.

Rauði krossinn opnaði nokkrum sinnum fjöldahjálparstöðvar og tók á móti fólki á Seyðisfirði, Egilsstöðum og Eskifriði. Tæplega 600 manns frá Seyðisfirði komu í fjöldahjálparstöðvar eða skráðu sig í gegnum Hjálparsímann 1717. Fjöldahjálparstöðvar voru opnar og þar gat fólk fengið mat auk fata ef á þurfti að halda en fyrst og fremst samveru. Eitt það mikilvægasta við fjöldahjálparstöðvar er sálræni stuðningurinn sem fólk finnur fyrir með því að koma saman. Þegar fjöldahjálparstöðvum var lokað tóku upplýsingamiðstöðvar á vegum almannavarna og sveitarfélagsins Múlaþings við, en Rauði krossinn var ávallt með fulltrúa þar til að liðsinna fólki.

Almenningur á Íslandi sem og víðar að hóf þegar öfluga fjáröflun fyrir þolendur hamfaranna. Samtals söfnuðust 7.715.430 krónur sem Rauði krossinn tók við og hafa m.a. nýst til að veita fjárhagsaðstoð til fólks sem missti eigur sínar í aurskriðunum, en einnig til að styðja við fólk að leita sér sálræns stuðnings og fleira. Meðal annars var sett á laggirnar sérstök nefnd sem tók við umsóknum frá fólki sem þurfti á aðstoð að halda en í henni sátu fulltrúar frá Rauða krossinum, Múlaþingi, kirkjunni og almannavörnum.

Allir fjármunir sem söfnuðust verða nýttir til uppbyggingar samfélagsins á Seyðisfirði.

Rauði krossinn á Íslandi þakkar mikinn hlýhug og traust í sinn garð.