Almennar fréttir

Söfnuðu 51 þúsund krónum fyrir Rauða krossinn

03. mars 2023

Stelpur úr skátafélaginu Landnemar styrktu Rauða krossinn um 51 þúsund krónur eftir vel heppnaða fjáröflun.

Stelpurnar sem héldu kökubasarinn heita Birna Signý Valdimarsdóttir, Kristín Kolbrún Hákonardóttir, Margrét Álfdís Huldudóttir, Melkorka Björk Iversen, Una Signý Sigurðardóttir og Unnur Álfrún Huldudóttir.

Sex stelpur úr fálkaskátaflokknum Valkyrjur í skátafélaginu Landnemar héldu kökubasar og kaffisölu í Skátaheimilinu til styrktar Rauða krossinum og náðu að safna 51 þúsund krónum.

Stelpurnar héldu basarinn þann 12. febrúar en höfðu skipulagt hann frá því 17. janúar. Þann tíma notuðu þær til að ákveða hvað þær ætluðu að selja, hver ætti að baka hvað, ákveða verðlagningu og auglýsa basarinn.

Kökubasarinn var mjög metnaðarfullur.

Þetta var metnaðarfullur kökubasar og stelpurnar settu upp setustofu fyrir viðskiptavini sína, svo úr varð hálfgert kaffihús á Skátaheimilinu. Stelpurnar seldu sjónvarpskökur, skinkuhorn, ostaslaufur, bollakökur, smákökur, súkkulaðikökur, brownies, kókoskúlur og kanilsnúða og allt seldist upp. Þær sögðu að þeim hefði þótt þetta mjög skemmtilegt verkefni.

Við hjá Rauða krossinum þökkum þeim kærlega fyrir dugnaðinn og framlag þeirra til mannúðarmála!