Almennar fréttir
Skyndihjálparmanneskjur ársins verðlaunaðar
11. febrúar 2025
Í dag var haldið upp á 112-daginn í slökkvistöðinni í Skógarhlíð 14, en þemað í ár var börn og öryggi. Við þetta tækifæri veitti Rauði krossinn á Íslandi skyndihjálparmanneskjum ársins viðurkenningu, en í ár urðu þrír einstaklingar, sem saman björguðu lífi, fyrir valinu.

Skyndihjálparmanneskjur ársins 2024 eru þau Guðrún Narfadóttir, Hinrik Þráinn Örnólfsson og Elín Ragnarsdóttir, sem veittu Hrafnkeli Reynissyni lífsbjörg þegar hann hneig niður á bílastæði í Álftamýrinni og fór í hjartastopp. Guðrún, sem átti leið fram hjá, hikaði ekki við að láta til sín taka: hún kallaði eftir aðstoð og hóf strax hjartahnoð. Hinrik og Elín, sem starfa í nærliggjandi húsi, heyrði köll hennar og hringdu umsvifalaust í 112. Neyðarvörðurinn Aðalheiður Sigrúnardóttir tók við símtalinu og með samstilltu átaki tókst Guðrúnu, Hinriki og Elínu að kaupa dýrmætan tíma þar til viðbragðsaðilar komu á staðinn og gáfu rafstuð. Hrafnkell er í dag við góða heilsu, meðal annars þökk sé þessum skjótvirku og fumlausu viðbrögðum.
Þau sýndu með glæsibrag hvernig rétt viðbrögð og fumlaus leiðsögn neyðarvarðar hjá Neyðarlínunni 112 geta bjargað mannslífi. Á viðburðinum tóku þau við viðurkenningaskjali, gjafabréf á skyndihjálparnámskeið Rauða krossins, 25.000 kr. gjafabréfi frá Elko, blómvendi og skyndihjálpartösku Rauða krossins.
Í neyð er lykilatriði að halda ró sinni, bregðast skynsamlega við og fylgja leiðbeiningum reyndra sérfræðinga Neyðarlínunnar 112, sem eru alltaf til taks, reiðubúin til að veita aðstoð og senda nauðsynlegan liðsauka.
Þekking á skyndihjálp og aðgengi að lífsbjargandi búnaði eins og hjartastuðtækjum margfalda lífslíkur. Öll getum við tileinkað okkur þessa dýrmætu kunnáttu, óháð aldri – því skyndihjálp bjargar lífum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Vanlíðan spyr ekki hvað klukkan sé
Innanlandsstarf 25. mars 2025„Samtölin eru að þyngjast og fleiri þeirra taka lengri tíma en áður,“ segir Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri Hjálparsímans 1717 sem Rauði krossinn rekur. Brýnt er að renna fleiri stoðum undir reksturinn svo halda megi þeirri lífsbjargandi þjónustu sem þar er veitt áfram allan sólarhringinn.

Skrifstofa Alþjóðaráðsins í Rafah skemmd
Alþjóðastarf 24. mars 2025„Átök á ný og ofbeldi fylla alla vonleysi,“ segir í nýrri yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum skal hjálparstarfsfólk, heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir njóta sérstakrar verndar.

Nýir og rúmbetri sjúkrabílar á leiðinni
Almennar fréttir 24. mars 2025Rauðinn krossinn mun á næstu mánuðum taka við 25 nýjum sjúkrabílum. Um tvær týpur af bílum verður að ræða.