Almennar fréttir

Sjálfboðaliðaþing á alþjóðadegi Rauða krossins 2021

08. maí 2021

Í dag, 8. maí, er alþjóðadagur Rauða krossins. Það er því vel við hæfi að sjálfboðaliðaþing Rauða krossins á Íslandi 2021 sé einnig haldið í dag en að þessu sinni fer þingið fram í beinu streymi á netinu.

Í dag, 8. maí, er alþjóðadagur Rauða krossins. Deginum, sem er fæðingardagur Henry Dunant stofnanda hreyfingarinnar, er fagnað ár hvert og er hann fyrst og fremst helgaður þeim milljónum sjálfboðaliða sem um allan heim gefa vinnu sína undir merkjum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Rauði krossinn á Íslandi sendir öllum sjálfboðaliðum félagsins bestu kveðjur í tilefni dagsins með þökkum fyrir þeirra mikilvægu störf í þágu mannúðar.

Í ár fagnar alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans sjálfboðaliðum sínum undir yfirskriftinni Together we are #unstoppable eða Saman erum við #óstöðvandi og er þar vísað til þrotlausrar vinnu sjálfboðaliða hreyfingarinnar í baráttunni við kórónaveiruna á síðastliðnu ári. Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans en landsfélög og sjálfboðaliðar hreyfingarinnar hafa meðal annars komið að verkefnum tengdum sóttvörnum, aðhlynningu, útvegun hjálpargagna og nauðþurfta, sjúkraflutningum og þannig mætti áfram telja. Hafa verkefni tengt faraldrinum því bæst við fyrri verkefni hreyfingarinnar tengd hjálparstarfi á átakasvæðum, forvörnum, þróunarsamvinnu og öðru.

Það er því vel við hæfi að sjálfboðaliðaþing Rauða krossins á Íslandi 2021 sé einnig haldið í dag en að þessu sinni fer þingið fram í beinu streymi á netinu. Á dagskrá þingsins, sem hefst klukkan 10, eru fjölbreytt og fræðandi erindi sem snúa að verkefnum Rauða krossins, leiðtogafærni, framtíð sjálfboðaliðasamtaka og fleira.

Hér fyrir neðan birtist einnig myndband alþjóðasambands Rauða krossins sem gert var í tilefni alþjóðadagsins í dag.  

Myndband alþjóðasambands Rauða krossins í tilefni alþjóðadagsins 8. maí 2021

 

\"SJALFBODALIDAThING-RAUDA-KROSSINS-final\"