Almennar fréttir
Sendifulltrúi skrifar frá Bahamas
25. nóvember 2019
Ívar Schram segir frá aðstæðum á eyjunum Abaco og Grand Bahama.
Nú eru um þrír mánuðir síðan að fellibylurinn Dorian lagði Bahamaeyjar undir sig. Dorian skráist í sögubækurnar sem stærsti fellibylur sem gengið hefur yfir Bahamaeyjar, og jafnframt skæðustu náttúruhamfarir í sögu landsins. Bahamaeyjar samanstanda af um 700 eyjum og sandrifum. Mestu skemmdirnar urðu á eyjunum Abaco og Grand Bahama.
Hér hef ég verið í um tvær vikur að störfum fyrir hönd Rauða krossins á Íslandi og Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC). Dorian gekk hratt yfir Abaco en dvaldi í um þrjá heila daga við Grand Bahama. Íbúar eyjanna voru búnir undir fellibylinn, en alls ekki flóðin sem hann olli.
Afleiðingar fellibylsins eru skelfilegar og er áætlað að hann hafi valdið tjóni á mannvirkjum að andvirði rúmlega 8 milljörðum bandaríkjadollara. Talið er að um 15.000 einstaklingar hafi orðið fyrir beinum áhrifum fellibylsins. 65 einstaklingar hafa verið fundnir látnir. 346 einstaklinga er enn saknað og 4800 einstaklingar eru enn heimilislausir. Aðstæður hér eru flóknar, svo ekki sé meira sagt. Á Abaco og Grand Bahama bjuggu samtals um 70.000 þúsund íbúar, svo vitað sé. Stór hluti þess íbúafjölda eru innflytjendur frá Haítí, og mikill fjöldi þeirra eru óskráðir verkamenn og fjölskyldur þeirra. Flest þeirra voru niðurkomin á Abaco fyrir fellibylinn. Af þessum sökum eru tölur um fjölda þolenda á reiki, erfitt hefur reynst að bera kennsl á lík og óskráðir innflytjendur forðast að leita upplýsinga hjá yfirvöldum vegna ótta við að vera flutt úr landi. Því er ómögulegt að segja til um nákvæma tölu látinna og þeirra sem er saknað.
Síðastliðnar vikur hef ég unnið náið með þolendum fellibylsins frá Abaco og Grand Bahama. Það er erfitt að endurspegla aðstæður þeirra með orðum. Ljósmyndir gefa sömuleiðis aðeins takmarkaða innsýn í þær samfélagslegu og sálrænu þjáningar og hörmungar sem fellibylurinn Dorian olli fólkinu á Grand Bahama og Abaco. Ég er ekki bara að lýsa þeim takmörkunum sem ég stend frammi fyrir gagnvart ykkur, kæru vinir, öllu heldur þeim ranveruleika sem stór hluti þolenda fellibylsins standa frammi fyrir eftir að hafa ekki aðeins misst heimili sín, samastað og lífsviðurværi, heldur líka börnin sín, barnabörn, foreldra, afa og ömmu, systkini sín, og/eða ástvini sína. Ég á ekki til orð í mínum banka sem varpa nógu skýru ljósi á aðstæður þeirra, og þau geta sömuleiðis átt erfitt með að komið sínum tilfinningum í orð til okkar.
Augu okkar sjá aðeins það sem hugur okkar skilur. Það er vegna þess sem neyðaraðstoð og þjónusta til þolenda þarf að stýrast af fólkinu sjálfu. Þannig sjáum við til þess að aðstoðin mætir raunverulegum og mismunandi þörfum á viðeigandi og skilvirkan hátt. Þetta er hluti af því sem ég fæst við hér á Bahamaeyjum. Að sjá til þess að rödd þolenda skili sér þangað sem ákvarðað er um hvers konar aðstoð sé mest þörf fyrir hverju sinni og hvernig sé best að koma henni í hendur þolenda. Ég leyfi nokkrum myndum að fylgja hér með frá gærdeginum í Mclean´s Town og Sweetings Cay á Grand Bahama.
Ívar Schram
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.