Almennar fréttir
Samvera\r\nog stuðningur á aðventu
02. desember 2019
Hundavinir prýða jólamerkimiða Rauða krossins í ár.
Nú þegar aðventan nálgast óðfluga fá mörg okkar fiðring af spenningi fyrir því sem framundan er; gleðinni í augum barnanna, jólabakstri og tónleikum, samveru með fjölskyldu og vinum svo ekki sé minnst á jólagjafirnar. En á sama tíma sækir einmanaleikinn að mörgum. Það hlakkar ekki alla til jólanna eða gleðjast á þessum dimmustu dögum ársins. Við hjá Rauða krossinum leggjum okkur fram, nú sem á öðrum tíma ársins, að veita stuðning og félagsskap til þeirra sem á þurfa að halda. Rauði krossinn starfrækir fjölmörg vinaverkefni um allt land. Á ýmsum stöðum koma hópar saman til að spjalla og vera saman, grípa jafnvel í prjóna eða smíða. Í mörgum bæjarfélögum starfa sjálfboðaliðar sem heimsóknarvinir og kíkja í kaffi og njóta samvista við gestgjafa sem oft og tíðum eru félagslega einangraðir af ýmsum ástæðum eða vantar einfaldlega meiri félagsskap. Hundavinir eru sennilegast krúttlegasti „sjálfboðaliðahópur“ Rauða krossins, en það eru hundar sem staðist hafa stranga þjálfun og heimsækja ýmsar stofnanir s.s. öldrunarheimili og sjúkrastofnanir sem og einkaheimili og veita félagsskap, nærveru og hlýju. Áætlað er að heimsóknarvinir á öllum aldri, þar á meðal hundavinir, heimsæki á annað þúsund manns í hverri viku.
Sjálfboðaliðinn Ólafur fer í heimsóknir á stofnanir með tíkina Emblu þar sem þau hitta fjölda fólks en aðspurður segir Ólafur „það er afskaplega gefandi að taka þátt í þessu stórmerka framtaki Rauða krossins enda er Embla einstakur gleðigjafi með fallega sál og hefur eignast marga vini sem bíða þess með óþreyju að hún birtist.“ Við erum afskaplega stolt af öllum okkar vinaverkefnum og getum alltaf bætt við okkur sjálfboðaliðum sem og gestgjöfum.
Hundarnir prýða jólamerkimiða Rauða krossins í ár, en þeir hafa verið gefnir út og bornir í hús frá árinu 1996. Við vonum að þeir hafi nýst vel sl. 23 ár, skreytt pakka í gegnum tíðina og muni gera svo áfram, en við hvetjum þau sem geta til að greiða fyrir miðana og styðja þannig innanlandsstarf Rauða krossins með SMSinu JOL í 1900, í netbankanum eða með gíróseðli sem fylgir jólamerkimiðunum.
Rauði krossinn vill einnig minna á Hjálparsímann 1717 og netspjallið sem er opið allan sólarhringinn, allan ársins hring – líka þegar klukkan slær sex á aðfangadag. Sjálfboðaliðar hlusta og veita stuðning. Ekkert er Hjálparsímanum óviðkomandi og ekkert vandamál of stórt eða lítið.
Njótum aðventunnar saman og hugsum ekki aðeins til þeirra sem minna mega sín, heldur heimsækjum þau, hlustum og styðjum og eflum öflugt starf Rauða krossins um allt land.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.

Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.