Almennar fréttir
Samningur við stjórnvöld um fræðslu í tengslum við menningarnæmi og fjölmenningu
04. janúar 2023

Rauði krossinn á Íslandi og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið undirrituðu í dag samning um fræðslu um menningarnæmi og fjölmenningu fyrir þjónustu- og viðbragðsaðila sem sinna þolendum og gerendum ofbeldis af erlendum uppruna.
Töluverð áskorun hefur verið að ná til innflytjenda sem eru fórnarlömb ofbeldis og benda tölur til þess að þolendur ofbeldis af erlendum uppruna sæki sér síður aðstoð en aðrir. Mikilvægt er að þau sem þjónustuna veita geri sér góða grein fyrir því hvernig best er að nálgast bæði þolendur og gerendur með ólíkan menningarbakgrunn. Menningarnæmi og þekking á fjölmenningu er því mikilvæg öllum þeim sem vinna með innflytjendum.
Rauði krossinn hefur rekið ýmis brautryðjendaverkefni í þágu innflytjenda hér á landi og sinnt öflugu starfi með flóttafólki frá árinu 1956. Þá gegnir félagið stoðhlutverki við stjórnvöld í samræmi við lög nr. 115/2014.
„Við erum spennt að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn ofbeldi og teljum að reynsla okkar og þekking nýtist vel þeim þjónustu- og viðbragðsaðilum sem sinna þolendum og gerendum ofbeldis,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir formaður Rauða krossins.
„Vegna þess trausts sem Rauði krossinn nýtur, bæði meðal nýrra íbúa sem og þeirra sem þegar búa hér, nálgast innflytjendur félagið oft með mjög viðkvæm og persónuleg málefni. Flóttafólk og innflytjendur koma oft og tíðum frá svæðum þar sem traust til stjórnvalda er takmarkað og hefur Rauði krossinn lagt á það áherslu að kynna þjónustu hins opinbera og byggja brú á milli stjórnvalda og þeirra sem hafa nýlega sest að á Íslandi með það að markmiði að auka traust á stjórnvöldum og kynna þau úrræði sem standa innflytjendum til boða,” segir Silja Bára og bætir við að það sé í samræmi við markmið stefnu Rauða krossins um opið, fjölbreytt og friðsælt samfélag sem byggir á samfélagslegri þátttöku, jöfnun tækifærum og samheldni.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.

Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.

Mikil neyð í Mjanmar
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar eru að störfum við erfiðar aðstæður á hamfarasvæðum eftir jarðskjálftana miklu.