Almennar fréttir
Samkomulag um áframhaldandi umsjón á áfallahjálp
06. mars 2019
Samkomulag Rauða krossins á Íslandi við almannavarnir um umsjón á áfallahjálp var nýverið endurnýjað til næstu 5 ára
Samkomulag Rauða krossins á Íslandi við almannavarnir um umsjón á áfallahjálp var nýverið endurnýjað til næstu 5 ára. Markmiðið með samkomulaginu er að efla og styrkja enn frekar áfallahjálp bæði til lengri og skemmri tíma. Aðilar að samkomulaginu eru auk Rauða krossins: Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Landspítalinn, Biskupsstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samkomulagið felur í sér að Rauði krossinn á Íslandi sér um samhæfingu og hefur umsjón með áfallahjálp á Íslandi í umboði samstarfsaðila og samkvæmt samkomulagi um hjálparlið almannavarna frá 2012. Rauði krossinn hefur jafnframt umsjón með fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi í skipulagi almannavarna, auk þess að koma að mönnun samhæfingar- og stjórnstöðvar almannavarna og aðgerðastjórna almannavarna.
Rauði krossinn vinnur í samstarfi við samráðshóp áfallahjálpar á landsvísu en í honum sitja fulltrúar frá aðilum samkomulagsins. Hlutverk samráðshópsins er að móta stefnu og gæta þess að besta þekking og úrlausnir á sviði áfallahjálpar endurspeglist í skipulagi áfallahjálpar á hverjum tíma. Á hamfaratímum vinnur samráðshópurinn áætlun um hvernig áfallaþjónusta færist frá Rauða krossinum inn í heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustu sveitarfélaga, stofnanir kirkjunnar á landsvísu eða til einkaaðila þegar neyðaraðgerðum lýkur eða eftir því sem aðgerðum vindur fram, í samráði við samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna. Vegna atburða á einstökum stöðum á landinu vinna Rauði krossinn og samráðshópur á landsvísu í nánu samstarfi við samráðshópa um áfallahjálp í umdæmum lögreglustjóra. Eru þeir samráðshópar einnig mannaðir fulltrúum frá Rauða krossinum, heilbrigðisstofnunum, sveitarfélögum, kirkju og lögreglu í hverju umdæmi fyrir sig. Vinna hóparnir með upplýsingagjöf og fræðslu auk þess sem þeir gera áætlun í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna í umdæminu um það hvernig áfallaþjónustan færist yfir til þjónustu í viðkomandi umdæmi.
Á myndinni má sjá fulltrúa samráðshóps á landsvísu: Bryndís Lóa Jóhannsdóttir (LSH), Salbjörg Bjarnadóttir (Landlæknisembættið), Agnes Björg Tryggvadóttir (LSH), Elfa Dögg S. Leifsdóttir (RKÍ), Guðrún Jóhannesdóttir (Ríkislögreglustjóri) og Sigfús Kristjánsson (Biskupsstofa).
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.