Almennar fréttir
Samkomulag um áframhaldandi umsjón á áfallahjálp
06. mars 2019
Samkomulag Rauða krossins á Íslandi við almannavarnir um umsjón á áfallahjálp var nýverið endurnýjað til næstu 5 ára
Samkomulag Rauða krossins á Íslandi við almannavarnir um umsjón á áfallahjálp var nýverið endurnýjað til næstu 5 ára. Markmiðið með samkomulaginu er að efla og styrkja enn frekar áfallahjálp bæði til lengri og skemmri tíma. Aðilar að samkomulaginu eru auk Rauða krossins: Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Landspítalinn, Biskupsstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samkomulagið felur í sér að Rauði krossinn á Íslandi sér um samhæfingu og hefur umsjón með áfallahjálp á Íslandi í umboði samstarfsaðila og samkvæmt samkomulagi um hjálparlið almannavarna frá 2012. Rauði krossinn hefur jafnframt umsjón með fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi í skipulagi almannavarna, auk þess að koma að mönnun samhæfingar- og stjórnstöðvar almannavarna og aðgerðastjórna almannavarna.
Rauði krossinn vinnur í samstarfi við samráðshóp áfallahjálpar á landsvísu en í honum sitja fulltrúar frá aðilum samkomulagsins. Hlutverk samráðshópsins er að móta stefnu og gæta þess að besta þekking og úrlausnir á sviði áfallahjálpar endurspeglist í skipulagi áfallahjálpar á hverjum tíma. Á hamfaratímum vinnur samráðshópurinn áætlun um hvernig áfallaþjónusta færist frá Rauða krossinum inn í heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustu sveitarfélaga, stofnanir kirkjunnar á landsvísu eða til einkaaðila þegar neyðaraðgerðum lýkur eða eftir því sem aðgerðum vindur fram, í samráði við samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna. Vegna atburða á einstökum stöðum á landinu vinna Rauði krossinn og samráðshópur á landsvísu í nánu samstarfi við samráðshópa um áfallahjálp í umdæmum lögreglustjóra. Eru þeir samráðshópar einnig mannaðir fulltrúum frá Rauða krossinum, heilbrigðisstofnunum, sveitarfélögum, kirkju og lögreglu í hverju umdæmi fyrir sig. Vinna hóparnir með upplýsingagjöf og fræðslu auk þess sem þeir gera áætlun í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna í umdæminu um það hvernig áfallaþjónustan færist yfir til þjónustu í viðkomandi umdæmi.
Á myndinni má sjá fulltrúa samráðshóps á landsvísu: Bryndís Lóa Jóhannsdóttir (LSH), Salbjörg Bjarnadóttir (Landlæknisembættið), Agnes Björg Tryggvadóttir (LSH), Elfa Dögg S. Leifsdóttir (RKÍ), Guðrún Jóhannesdóttir (Ríkislögreglustjóri) og Sigfús Kristjánsson (Biskupsstofa).
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.