Almennar fréttir

Reykjavíkurborg tekur við rekstri Vinjar

02. júlí 2021

Lyklaskipti urðu í gær þegar velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstri dagsetursins Vin við Hverfisgötu. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hefur rekið í nær 29 ár.

Lyklaskipti urðu í gær þegar velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstri dagsetursins Vin við Hverfisgötu. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hefur rekið í nær 29 ár. Eftir sem áður verður helsta hlutverk Vinjar að draga úr félagslegri einangrun og skapa vinalegt umhverfi fyrir gesti setursins.

Það var létt yfir fólki þegar fulltrúar Rauða krossins annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar hittu stjórnendur og nokkra gesti Vinjar í dagsetrinu í gær. Tilefnið voru formleg lyklaskipti en eftir nær 29 ár færist nú starfsemin þar frá Rauða krossinum yfir til Reykjavíkurborgar. Það var Halldóra Pálsdóttir, forstöðumaður Vinjar, sem afhenti Regínu Ásvaldsdóttir, sviðsstjóra velferðarsviðs, formlega lyklavöldin. Hún bauð velferðarsvið velkomið um leið og hún kvaddi Rauða krossinn, þakkaði fyrir samfylgdina og sagði frá anda starfseminnar, sem einkennist öðru fremur af mannvirðingu og vináttu. Einn af fastagestum og hollvinum dagsetursins, Garðar Sölvi Helgason, var meðal viðstaddra en gestir fengu að gjöf bók Ívars Rafns Jónssonar, Glímt við geðklofa, sem er reynslusaga Garðars Sölva.

Yfir hundrað einstaklingar heimsækja Vin reglulega. Þar er lögð áhersla á fræðslu- og batamiðuð verkefni til að efla virkni gesta, með tilliti til þarfa og áhuga hvers og eins. Þar er meðal annars starfrækt ferðafélagið Víðsýn og Vinaskákfélag. Þar er einnig listasmiðja, haldnir fundir og margt fleira.

Marín Þórsdóttir, forstöðumaður Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, sagði það ljúfsára stund að kveðja Vin:

Þetta eru blendnar tilfinningar. Við höfum verið með Vin í næstum 29 ár og það hefur gengið ótrúlega vel en á sama tíma er líka gott að vita til þess að Reykjavíkurborg taki við starfseminni. Við finnum að þar er mikill metnaður fyrir hönd gesta Vinjar og það er það sem skiptir mestu máli. Vin hefur svo sannarlega verið vin fyrir þennan hóp og allt útlit fyrir að svo verði áfram.

Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða mun framvegis sjá um rekstur Vinjar. Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvarinnar, segir spennandi tíma framundan:

Við erum að taka við mjög góðu starfi og það skiptir öllu máli. Við erum spennt fyrir þessu verkefni. Við ætlum að læra af því starfi sem hefur verið hér og tökum svo eitt skref í einu í átt að því að efla það enn frekar.

\"\"
Marín Þórsdóttir, forstöðumaður Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Garðar Sölvi Helgason, fastagestur og hollvinur Vinjar, Halldóra Pálsdóttir, forstöðumaður Vinjar og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.

\"\"
Marín Þórsdóttir og Halldóra Pálsdóttir.

\"\"
Marín Þórsdóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir hafa fánaskipti við Vin.