Almennar fréttir

Rauði krossinn undirritar samning um hjálparlið almannavarna

25. október 2021

Ríkislögreglustjóri, formaður Rauða krossins á Íslandi og formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar skrifuðu undir endurnýjað „Samkomulag um hjálparlið almannavarna“, sem síðast var endurnýjað árið 2012.

Þann 22. október skrifuðu ríkislögreglustjóri, formaður Rauða krossins á Íslandi og formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar undir endurnýjað „Samkomulag um hjálparlið almannavarna“, sem síðast var endurnýjað árið 2012.

Samkomulagið er gert á grundvelli almannavarnalaga og tryggir sem fyrr aðkomu sjálfboðaliða Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar að almannavarnaviðbragði landsins. Að undirritun lokinni staðfesti dómsmálaráðherra samkomulagið. Við sama tækifæri voru undirritaðir sérsamningar ríkislögreglustjóra við félögin bæði um nánari skilgreiningu verkefna þeirra og verklag í almannavarnaaðgerðum.

Hlutverk Rauða krossins í samkomulaginu felst meðal annars í opnun og starfrækslu fjöldahjálparstöðva, söfnunarsvæða aðstandenda og skráningarstöðva, úrvinnslu skráninga, sálfélagslegum stuðningi og aðkomu að rekstri þjónustumiðstöðva almannavarna.

Rauði krossinn fagnar samkomulaginu og mun sinna hlutverki sínu áfram af fagmennsku og ábyrgð.