Almennar fréttir

Rauði krossinn sendir sendifulltrúa til Úganda vegna ebólusmita

02. júlí 2019

Magna Björg Ólafsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi er nú farin út til Úganda til að veita aðstoð og ráðgjöf varðandi ebólu og hvernig megi koma í veg fyrir frekari smit í Úganda.

Þann 11. júní sl. var ebólu tilfelli staðfest í Úganda af heilbrigðisráðherra landsins og Alþjóðaheilbrigðisstofnuni. Fimm ára drengur sem ferðaðist með fjölskyldu sinni frá Austur-Kongó greindist með sjúkdóminn og síðar tveir fjölskyldumeðlimir hans. Magna Björg Ólafsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi er nú farin út til Úganda til að veita aðstoð og ráðgjöf varðandi ebólu og hvernig megi koma í veg fyrir frekari smit í Úganda.

Drengurinn, ásamt tveimur öðrum fjölskyldumeðlimum sem ferðuðust yfir landamæri Austur-Kongó og Úganda smituðust af sjúkdóminum. Drengurinn, sem var fimm ára lést og amma hans einnig.

Rauði krossinn í Úganda hefur undanfarið unnið náið með stjórnvöldum og öðrum hluteigandi aðilum til þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu ebólu í landinu, en þessir aðilar hafa einnig verið í viðbragstöðu síðustu mánuði vegna hættu á að sjúkdómurinn berist yfir landamærin frá Austur-Kongó. Með stuðningi frá Alþjóðaráði Rauða krossins hefur Rauði krossinn í Úganda þjálfað hundruð sjálfboðaliða sem liður í forvarnarstarfi gegn sjúkdóminum.

\"P-UGA0962\"

,,Á svæðinu, felst styrkur Rauða krossins í því að njóta traust og starfa í nærsamfélögum fólks. Það hefur reynst mikilvægt þegar er skimað fyrir sjúkdómnum, sótthreinsun fer fram, skilaboðum um smitunarhættu þarf að koma áleiðis og áfallahjálp er veitt. Að veita slíka aðstoð er m.a. sú þjálfun sem sjálfboðaliðarnir hafa fengið,’’ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Ísland. Rauði krossinn veitir einnig tæknilega aðstoð til heilbrigðisráðuneytisins við framkvæmd öruggra og virðulegra greftruna eftir beiðnum.

Magna afar reyndur sendifulltrúi

Magna Björk Ólafsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi, fór til Úganda á föstudaginn síðasta og mun starfa þar í mánuð.

Magna er afar reyndur bráðahjúkrunarfræðingur sem hefur farið fjölmargar ferðir til neyðarsvæða á vegum Rauða krossins á Íslandi. Magna hefur verið sendifulltrúi fyrir Rauða krossinn á Haití, Filippseyjum, í Írak, Kenía, Suður-Súdan, Bangladesh og í Síerra Leóne í tengslum við ebóluvá ásamt því að sinna námskeiðskennslu víða um heiminn.

Magna er hluti af viðbragðmatsteymi Alþjóða Rauða krossins, FACT (Field Assessment Coordination Team) sem kallað var til í kjölfar staðfestingarebólutilfellis í Úganda. Magna er sérhæfður lýðheilsusérfræðingur og er hlutverk hennar að liðsinna Rauða krossinum í Úganda við vinnslu forvarna og viðbragsáætlana vegna áhættumats á ebólu. Magna mun m.a. taka þátt í gerð heildarstefnumótunnar, skipulagningu samhæfinga með öðrum heilbrigðisaðilum og mun vera í viðbragðstöðu til að veita stuðning í neyðartilvikum varðandi útbreiðslu sjúkdómsins.

„Það skiptir öllu máli að hefta frekari útbreiðslu ebólu“ segir Atli ennfremur en Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt aðgerðir Alþjóða Rauða krossins í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem ebóla

hefur geysað undanfarið. „Það er allra hagur að hefta frekari smit og frekari útbreiðslu og reyna sem kostur er að ráða niðurlögum ebólu“, segir Atli. „Við erum sérlega þakklát utanríkisráðuneytinu og Mannvinum Rauða krossins fyrir þann stuðning. Hann er ómetanlegur og það er mikilvægt að muna það að framlag Íslands skiptir sannarlega máli, hvert einasta framlag skiptir máli.“