Almennar fréttir
Rauði krossinn opnar sóttkvíarhótel
30. mars 2021
Rauði krossinn hefur fallist á beiðni stjórnvalda um umsjá nýs sóttkvíarhótels sem verður opnað vegna hertra sóttvarnarráðstafana á landamærum sem taka gildi fimmtudaginn 1. apríl.
Rauði krossinn hefur fallist á beiðni stjórnvalda um umsjá nýs sóttkvíarhótels sem verður opnað vegna hertra sóttvarnarráðstafana á landamærum sem taka gildi fimmtudaginn 1. apríl. Nýju ráðstafanirnar kveða á um að öll þau sem koma til Íslands frá dökkrauðum löndum, þ.e. löndum þar sem 14 daga nýgengi COVID-19 smita er yfir 500 á hverja 100.000 íbúa*, skulu dvelja í húsnæði á vegum stjórnvalda meðan á sóttkví eða einangrun stendur.
Frá því snemma árs 2020 hefur Rauði krossinn haft umsjón með farsóttarhúsum við Rauðarárstíg í Reykjavík, á Akureyri og víðar, með góðum árangri. Frá og með 1. apríl mun Fosshótel Reykjavík við Þórunnartún gegna hlutverki sóttkvíarhótels, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Íslands, enda krefjast hinar nýju reglur á landamærum nýrra úrræða. Rauði krossinn mun hafa umsjón með sóttkvíarhótelinu auk þess sem farsóttarhúsið við Rauðarárstíg verður áfram opið en ekki er útilokað að fleiri sóttkvíarhótel verði opnuð í framhaldinu.
Erfitt er að áætla þann fjölda gesta sem mun þurfa að dvelja á sóttkvíarhótelum og í farsóttarhúsum á næstu vikum en búast má við sá fjöldi muni skipta hundruðum. Þjálfun nýs starfsfólks Rauða krossins sem mun sinna fjölbreyttum verkefnum þessu tengdu er þegar hafin.
Ekki er hægt að panta á sóttkvíarhóteli og munu þau sem þangað fara fá upplýsingar þar að lútandi fyrir komu. Um farþega sem koma til landsins frá löndum sem ekki eru á lista sóttvarnalæknis gilda almennar reglur um sóttkví sem má nálgast á covid.is
Upplýsingar um gildandi sóttvarnarreglur má finna á covid.is en Rauði krossinn mun áfram miðla upplýsingum tengdum faraldri kórónuveirunnar á raudikrossinn.is og á samfélagsmiðlum. Finnir þú fyrir kvíða, einmanaleika eða þunglyndi þá veita Hjálparsíminn 1717 og netspjallið á 1717.is stuðning og ráðgjöf allan sólarhringinn.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins:
„Það að stjórnvöld óski eftir að Rauði krossinn hafi umsjón með hinu nýja sóttkvíarhóteli er skýr staðfesting á góðum árangri okkar undanfarið ár. Vegferðin til þessa hefur sannarlega verið krefjandi og full af óvissu, enda opnuðum við farsóttarhúsið á Rauðarárstíg upphaflega til þriggja mánaða eða svo, en ári síðar erum við hér enn – reynslunni ríkari. Þessi dýrmæta reynsla mun nýtast okkur áfram í þeim áskorunum sem sannarlega munu fylgja opnun nýrra úrræða og móttöku enn fleiri gesta en áður.“
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins:
„Hjá Rauða krossinum tökum við hlutverk okkar sem mikilvægur hlekkur í almannavörnum landsins mjög alvarlega og nálgumst umsjón farsóttarhúsa og sóttkvíarhótela – eins og öll okkar verkefni – af alúð og virðingu.
Þó aðkoma og þrotlaus vinna Rauða krossins í ástandi sem þessu sé tryggð með samkomulagi við stjórnvöld þá er það nú samt svo að án dyggs stuðnings Mannvina, félagsfólks og annarra velunnara væri Rauði krossinn ekki í stakk búinn að bregðast við með þeim snögga og fumlausa hætti sem dæmi undanfarins árs sanna. Fyrir þetta þökkum við af heilum hug en treystum um leið á áframhaldandi stuðning og velvild svo áfram megi bregðast við þegar þörf krefur, með hlutleysi og mannúð að leiðarljósi.“
*Embætti landlæknis hefur birt lista yfir þau lönd sem eru dökkrauð eða grá. Listann má nálgast á: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item44813/COVID-19-landalisti-fyrir-sottvarnahus
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.