Almennar fréttir

Rauði krossinn og Sjúkratryggingar Íslands saman að teikniborðinu

09. apríl 2021

Fulltrúar Rauða krossins (RKÍ) og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) leita nú í sameiningu leiða til að uppfylla nýja reglugerð um sóttkví sem tók gildi á miðnætti. Snýr sú vinna einkum að því að tryggja gestum sóttkvíarhótela útivist án þess að skerða sóttvarnir. 

Fulltrúar Rauða krossins (RKÍ) og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) leita nú í sameiningu leiða til að uppfylla nýja reglugerð um sóttkví sem tók gildi á miðnætti. Snýr sú vinna einkum að því að tryggja gestum sóttkvíarhótela útivist, samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar, án þess að skerða sóttvarnir. Þetta kallar á verulega breytt verklag og aukinn mannafla. Lagt er kapp á að vinna þetta hratt og vel og má vænta frekari frétta á næstu 24-48 klukkustundum.

Meðan á þessari vinnu stendur er því miður ekki mögulegt að tryggja gestum tækifæri til útivistar þar sem slíkt myndi koma niður á sóttvarnarráðstöfunum og þar með ógna öryggi gesta sóttkvíarhússins í Þórunnartúni. RKÍ og SÍ treysta á skilning gesta og samfélagsins alls á þessum tímabundnu óþægindum.