Almennar fréttir
Rauði krossinn minnir á mikilvægi mannúðarlaga
12. maí 2021
Rauði krossinn á Íslandi harmar undir öllum kringumstæðum ofbeldi og átök sem bitna á óbreyttum borgurum og fordæmir brot á alþjóðlegum mannúðarlögum.
Rauði krossinn á Íslandi harmar undir öllum kringumstæðum ofbeldi og átök sem bitna á óbreyttum borgurum og fordæmir brot á alþjóðlegum mannúðarlögum. Slík lög kveða meðal annars á um að heilbrigðisstarfsfólk, sem hjálpar þolendum vopnaðra átaka, verði að geta unnið starf sitt og leggja bann við árásum á sjúkrabíla og húsnæði þar sem særðum er hjúkrað.
Undanfarna daga hafa almennir borgarar í Palestínu og Ísrael slasast og týnt lífi, þar á meðal börn. Bráðaliðar Rauða hálfmánans í Palestínu hafa orðið fyrir árásum, verið meinaður aðgangur að særðum og skemmdir hafa verið unnar á sjúkrabifreiðum félagsins. Rauði krossinn á Íslandi lýsir yfir þungum áhyggjum af ofangreindu og fordæmir öll brot á mannúðarlögum.
Rauði krossinn á Íslandi er í sambandi við samstarfsaðila á vettvangi, Alþjóðaráð Rauða krossins og palestínska Rauða hálfmánann. Rauði hálfmáninn sinnir mikilvægu starfi sem fyrsti viðbragðsaðili en starfsmenn og sjálfboðaliðar félagsins sjá um að veita fyrstu hjálp, hlúa að særðum og sinna sjúkraflutningum. Þá á Alþjóðaráð Rauða krossins í samskiptum við alla aðila átaka og vinnur að því að efla aðgengi heilbrigðisstarfsfólks til að sinna særðum.
Það er grundvallaratriði að særðir fá aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Rauði krossinn á Íslandi tekur því undir ákall Alþjóðaráðs Rauða krossins sem hvetur viðeigandi stjórnvöld til að lægja öldur og virða alþjóðleg mannúðarlög með því að tryggja skjótan, öruggan og óhindraðan aðgang sjúkrabifreiða, heilbrigðisstarfsfólks og sjálfboðaliða. Þá minnir Rauði krossinn alla aðila á að virða ber grundvallaatriði mannúðarlaga þar sem beinar árásir á óbreytta borgara eru bannaðar og áhersla lögð á að gæta beri ítrustu varúðar til að forðast mannfall almennra borgara.
Rauði krossinn hrindir af stað söfnun
Í hartnær tuttugu ár hefur Rauði krossinn á Íslandi átt farsælt samstarf við Rauða hálfmánann í Palestínu. Áhersla samstarfsverkefna félaganna tveggja hefur verið að auka áfallaþol og viðnámsþrótt palestínska samfélagsins og bæta geðheilsu íbúa landsins. Rauði hálfmáninn hefur þjálfað hundruð sjálfboðaliða til að veita sálfélagslegan stuðning þegar áföll dynja yfir auk þess sem félagið veitir ýmis konar þjónustu við fólk sem þjáist vegna hernámsins. Þá fá börn sérstaka aðstoð í hópum með jafnöldrum sínum og ungmennum er gefinn kostur á að starfa sem sjálfboðaliðar og fá þannig margvíslega þjálfun sem eflir þau og hvetur til jákvæðrar samfélagslegrar þátttöku.
Rauði krossinn á Íslandi hefur nú sett af stað sérstaka söfnun svo halda megi áfram þessum mikilvæga stuðningi nú þegar ástandið er eins erfitt og raun ber vitni. Það er von félagsins að einstaklingar og fyrirtæki taki átakinu vel og leggi söfnuninni lið.
Hægt er að veita stuðning með eftirtöldum leiðum:
- Söfnunarsíða Rauða krossins
- SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.)
- Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
- Kass: raudikrossinn eða 7783609
- Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.

Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.