Almennar fréttir
Rauði krossinn er til staðar
01. apríl 2020
Síðustu daga hefur Rauði krossinn vakið athygli á stöðu berskjaldaðra hópa á tímum Covid-19.
Síðustu daga hefur Rauði krossinn vakið athygli á stöðu berskjaldaðra hópa á tímum Covid-19.
Hér má nálgast þær greinar:
Elísabet Brynjasdóttir - heimilislausir.
Margrét Lúthersdóttir - flóttafólk.
Kristína Erna - félagslega einangraðir.
Halldóra Einarsdóttir - andlega veikir.
Sigríður Ella Jónsdóttir - fangar.
Grein eftir Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi:
Á erfiðum tímum er mikilvægt að styðja sig við ættingja, vini og vinnufélaga, en þetta á aðeins við um þá sem eiga slíkt tengslanet. Fjöldi fólks býr ekki svo vel, á ekki fjölskyldu og situr eitt, hrætt og einmana – jafnvel á stofnun, í fangelsi eða í ótryggu húsnæði og jafnvel á á götunni. Fólk sem alla jafna treystir á félagslegan stuðning við daglega rútínu, t.d. félagsstarf fyrir eldri borgara eða dvöl í Vin, geðathvarfi Rauða krossins. Þetta geta verið börn eða fullorðnir, fatlað fólk, fátækt fólk, veikt fólk, fólk allsstaðar að, úr sveit eða borg og fólk utan úr heimi sem hingað hefur komið í leit að betra lífi. Þetta fólk á það sameiginlegt að vera meðal skjólstæðinga Rauða krossins og í þessum hópi eru fleiri en margan grunar.
Nótt sem nýtan dag
Á síðustu vikum hefur samtölum í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 fjölgað gríðarlega. Sjálfboðaliðar sitja við símann eða netspjallið á 1717.is nótt og dag og svara fólki sem óttast um hlutskipti sitt. Á venjulegu ári svarar Rauði krossinn um 15.000 samtölum í 1717, en í síðustu viku voru erindin 3.500. Það sem af eru ári eru eru samtölin orðin 8.500. Sjálfboðaliðar sem fengið hafa stranga þjálfun sjá um að svara erindum fólks sem oft sér ekki fram úr þeim vanda sem það býr við. Þeir eru ómetanleg auðlind fyrir Rauða krossinn og í reynd fyrir þjóðina alla.
Það er mjög gleðilegt að fylgjast með þeirri samkennd sem myndast hefur í samfélaginu að undanförnu. Fólk er boðið og búið að leggja náunganum lið, grannar hjálpast að, vinnufélagar leita hver til annars, gamlir vinir styðja hver við annan og fjölskyldur þjappa sér saman. Um leið og þetta gerist þá vitum við líka - því miður - að því lengur sem samkomubann varir, því lengri sem einangrun varir, því fleiri sem missa vinnuna, því óeðlilegra sem ástandið verður, því erfiðari verður staða þeirra sem minnstar hafa varnirnar. Rauði krossinn á Íslandi hvetur alla til að huga að því fólki sem þarf á hjálp að halda.
Náungakærleikurinn mikilvægur
Við státum okkur stundum af því að vera rík þjóð og nú sést að innviðir okkar eru býsna sterkir og kerfin okkar virkar vel. Ríkidæmi skiptir þó engu ef einungis sumir fá kerfanna notið. Vonandi tekst okkur í sameiningu að vinna okkur fljótt og vel í gegnum þessa neyð með samtakamætti og skynsamlegri nálgun.
Á sama tíma verður ekki hjá því komist að hugsa til þeirra samfélaga sem voru hvað veikust fyrir áður en veiran skaut upp kollinum. Fátækustu þjóðir heims, margar þeirra í Afríku, eiga því miður á hættu að samfélög þeirra veikist mjög, heilbrigðiskerfin ráði ekki við veiruna og að fjöldi fólks muni láta lífið. Þá er hætt við að fátækt aukist, átök haldi áfram og enn fleiri en áður neyðist til að flýja heimkynni sín. Það verður því ekki of oft á það minnt að náungakærleikurinn þarf að ná lengra en í næsta hús. Okkur ber ekki aðeins siðferðisleg skylda til að aðstoða þá sem búa við neyð, innanlands sem utan, heldur leggja okkar lóð á vogarskálar þeirra sem vinna að öruggari og betri heimi.. Það er því mikilvægt, jafnvel þó kreppi tímabundið að, að stjórnvöld horfi til framtíðar og skeri ekki niður framlög til mannúðar- og þróunaraðstoðar nú þegar þeirra er mest þörf.
Rauði krossinn þinn
Rauði krossinn hugar sérstaklega að berskjölduðustu hópum í hverju samfélagi og undanfarna daga höfum við beint sjónum almennings að hlutskipti þeirra hér á Íslandi, m.a. með greinum á Vísi.is. Til þess að Rauði krossinn á Íslandi geti stutt við þessa hópa þarf hann líka á stuðningi að halda. Ég leyfi mér að fullyrða að engin er betur undir það búin að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, koma nauðstöddum til bjargar, styrkja innviði og aðstoða stjórnvöld á því sviði en alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Þess vegna biðla ég til ykkar, lesendur góðir, að gerast Mannvinir Rauða krossins. Með framlögum sínum koma Mannvinirnir tugþúsundum nauðstaddra til hjálpar og aðstoðar með ábyrgum hætti á ári hverju. Á sama hátt og vel þjálfaðir sjálfboðaliðar bera starfið uppi hér heima gera sjálfboðaliðar það sama um allan heim, fólk sem þekkir best til aðstæðna á sínu svæði og tryggir að rétt aðstoð sé veitt réttu fólki á réttum stað og á réttum tíma. Í þessu liggur sérstaða Rauða krossins. Með ykkar hjálp byggjum við betra og öruggara samfélag fyrir alla.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.