Almennar fréttir
Rauði krossinn á Íslandi fagnar samningi stjórnvalda við Alþjóðaráðið
29. febrúar 2024
Rauði krossinn á Íslandi lýsir yfir mikilli ánægju með nýjan samstarfssamning íslenskra stjórnvalda við Alþjóðaráð Rauða krossins.
Á miðvikudag undirrituðu íslensk stjórnvöld nýjan samstarfssamning um stuðning Íslands við Alþjóðaráð Rauða krossins til þriggja ára. Framlög íslenskra stjórnvalda munu nema 30 milljónum króna á ári til ársins 2026. Stuðningur alþjóðaráðsins snýr ekki síst að lagalegri vernd og aðstoð við fórnarlömb vopnaðra átaka á grundvelli mannúðarlaga. Þetta kom fram á vef Stjórnarráðsins.
„Þessi nýi samningur við Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) er kærkomin viðbót við það farsæla samstarf sem landsfélagið hér á Íslandi hefur átt við stjórnvöld til margra ára og við fögnum því að stjórnvöld setji aukinn kraft í mannúðaraðstoð á þennan hátt,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
„Alla jafna sinna landsfélög starfi Rauða krossins í hverju landi fyrir sig, en Alþjóðaráð Rauða krossins er sá hluti alþjóðahreyfingarinnar sem sinnir störfum á stríðshrjáðum svæðum,“ útskýrir Kristín. „Það er sannarlega full þörf á að styrkja þeirra erfiða og gríðarlega mikilvæga starf, en því miður eru litlar líkur á að verkefni þeirra verði færri eða umfangsminni á næstu árum.“
Öflugt samstarf stjórnvalda og Rauða krossins
Auk samningsins sem undirritaður var á miðvikudag eiga íslensk stjórnvöld í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu og styðja verkefni Alþjóðaráðsins og Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (regnhlífarsamtök landsfélaga um allan heim) í gegnum rammasamninga við Rauða krossinn á Íslandi.
Í lok janúar var einnig tilkynnt um 25 milljón króna viðbótarframlag til Rauða krossins á Íslandi vegna viðbragða Alþjóðaráðsins við neyðarástandinu sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitGísli Rafn Ólafsson ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
Almennar fréttir 04. febrúar 2025Rauði krossinn á Íslandi hefur ráðið Gísla Rafn Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins og hefur hann störf í þessari viku.
Rauði krossinn við Eyjafjörð leggur 2 milljónir til neyðarsöfnunar fyrir Gaza
Almennar fréttir 29. janúar 2025Í tilefni af 100 ára afmæli Rauða krossins við Eyjafjörð hefur stjórn deildarinnar ákveðið að leggja 2 milljónir króna til neyðarsöfnunarinnar. Með þessu vill deildin sýna samhug og stuðning við þá sem þurfa á hjálp að halda á þessum erfiðu tímum.
Kvennadeild Reykjavíkurdeildar styrkir Frú Ragnheiði um 1.300.000 krónur
Almennar fréttir 24. janúar 2025Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins afhenti nýverið skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiði, styrk að andvirði 1.300.000 króna. Upphæðin er afrakstur sölu á jólabasar kvennadeildarinnar, auk handverks sem framleitt var af Prjónahópnum og selt í sölubúðum á Landspítalanum við Hringbraut og í Fossvogi.