Almennar fréttir

Ragna Árnadóttir kjörin í stjórn IFRC

19. júní 2022

Rauði krossinn á Íslandi hlaut í dag kjör til stjórnar Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC Governing Board) á aðalfundi IFRC sem haldinn er í Genf. Ragna Árnadóttir er fulltrúi Rauða krossins á Íslandi og er sjálfboðaliði í stjórninni næstu fjögur ár.

IFRC er samband allra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans um heim allan, alls 192 félög. Í stjórninni sitja forseti, fimm varaforsetar og fulltrúar frá 20 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans um heim allan.

Ragna er skrifstofustjóri Alþingis, var áður aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og dómsmálaráðherra. Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum á Íslandi um árabil og var varaformaður stjórnar félagsins frá 2012-2020.

Rauði krossinn á Íslandi hefur ein sinni áður átt fulltrúa í stjórn IFRC, en Guðjón Magnússon læknir sat í stjórninni á árunum 1989-1993.

Hlutverk stjórnarinnar er m.a. að vera ráðgefandi milli aðalfunda IFRC, ráða framkvæmdastjóra IFRC og sjá til þess að ákvörðunum aðalfundar sé framfylgt. Með kjörinu hefur Rauði krossinn á Íslandi tækifæri til að móta stefnu IFRC til framtíðar og tryggja eftirfylgni við markmið alþjóðahreyfingarinnar um mannúð og óhlutdrægni um allan heim.

 

Á myndinni eru þær Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, Ragna Árnadóttir og Kristín S. Hjálmtýsdóttir eftir kjörið í dag.