Almennar fréttir
Ný bifreið Frú Ragnheiðar var vígð í gær
03. júní 2021
Vígsla nýrrar bifreiðar Frú Ragnheiðar fór fram við Efstaleiti 9 í gær. Frú Ragnheiður er skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins sem hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu.
Vígsla nýrrar bifreiðar Frú Ragnheiðar fór fram við Efstaleiti 9 í gær. Frú Ragnheiður er skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins sem hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu á borð við almenna heilsufarsskoðun, heilbrigðisþjónustu og ráðgjöf.
Frú Ragnheiður fór fyrst út á götur Reykjavíkur árið 2009 og hefur síðan þá veitt þúsundum jaðarsettra einstaklinga mikilvæga þjónustu byggða á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Frá þeim tíma hefur verkefnið vaxið og virðing þess í samfélaginu aukist.
Fyrri bifreið Frú Ragnheiðar hafði nýst verkefninu vel en var komin til ára sinna og þörfin fyrir nýjan bíl orðin mikil. Það var svo í fyrra, á ellefta starfsári Frú Ragnheiðar, sem almenningur tók sig saman og hóf að safna fyrir nýjum bíl henni til handa. Það er því fyrir tilstuðlan velunnara verkefnisins, einstaklinga og annarra frjálsra félagasamtaka, sem ný bifreið hefur nú verið keypt og sérstaklega innréttuð til að þjóna verkefninu og notendum þess. Rauði krossinn kann gjafmildum velunnurum sínum bestu þakkir fyrir þann ómetanlega stuðning.
Jón Ásgeirsson, formaður Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, opnaði dagskránna með stuttu erindi þar sem hann ræddi meðal annars þá vitundarvakningu sem hefur átt sér stað á síðustu árum:
Það er ekkert launungarmál að fyrir rúmum áratug síðan voru svo sannarlega ekki öll sannfærð um að skaðaminnkandi nálgun, nálaskiptaþjónusta og annað í þeim dúr væri rétta leiðin. En síðan þá hefur margt breyst og skaðaminnkandi aðferðafræði svo sannarlega komin til að vera. Skemmst er að minnast umræðna - eða kannski öllu heldur víðtækrar samstöðu - um neyslurými sem sýndi glöggt þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefur á síðustu árum. Þar er ljóst að Frú Ragnheiður og óeigingjarnt starf sjálfboðaliða og starfsfólks hennar hefur skipt miklu.
Auk sjálfboðaliða og starfsfólks Rauða krossins voru viðstödd þau Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Rauða krossins, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, og Gunnar Hilmarsson, formaður styrktarsjóðs Lofts sem auk þess er sjálfboðaliði á Frú Ragnheiði.
Í ávarpi sínu ræddi Svandís Svavarsdóttir um mikilvægi skaðaminnkunar og þess að jaðarsettum sé mætt af mannúð og hlýju, líkt og gert sé í Frú Ragnheiði. Þá sagði hún að um hreint og klárt mannréttindaverkefni sé að ræða og fagnaði því að skaðaminnkandi aðferðafræði sé sérstaklega getið í nýrri stefnu Rauða krossins til ársins 2030.
Það var svo Guðni Th. Jóhannesson sem vígði bifreiðina formlega og óskaði Frú Ragnheiði og sjálfboðaliðum hennar velfarnaðar. Raunar var þetta frumraun forseta í vígslu bifreiða sem hann sagði þó að væri honum bæði ljúft og skylt að gera. Guðni gerði vonina að umtalsefni í ávarpi sínu og mikilvægi þess að eiga vona en hann sagði erfiðast að missa vonina á meðan dýrmætast væri að eiga hana.
Ég á mér þá von að öll þau sem þurfa að nýta þjónustu Frúarinnar finni fyrir von, mannúð og manngæsku og að þannig takist okkur að gera samfélagið ögn betra í dag en í gær.
Sagði Guðni Th. Jóhannesson áður en hann bauð gestum að skoða hina nýju bifreið sem í framhaldinu hélt svo í jómfrúarferð sína um götur höfuðborgarsvæðisins.
Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Rauða krossins, og Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastýra Frú Ragnheiðar.
Svandís Svavarsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson við vígslu nýrrar Frú Ragnheiðar.
Elísabet Brynjarsdóttir, Gunnar Hilmarsson og Guðni Th. Jóhannesson.
Þrír af sjálfboðaliðum Frú Ragnheiðar rétt áður en lagt var upp í jómfrúarferð nýrrar bifreiðar verkefnisins.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.