Almennar fréttir
Neyðarsöfnun vegna?COVID-19 í Malaví
11. febrúar 2021
Gríðarstór COVID-19 bylgja herjar nú á berskjaldaða íbúa?Malaví, eins?þéttbýlasta lands? Afríku.?Rauði krossinn veitir lífsbjargandi aðstoð í Malaví og fer þess nú á leit við fólk og fyrirtæki að þau styðji aðgerðirnar dyggilega.?
Þú getur stutt söfnunina með því að:
senda sms-ið TAKK í 1900 (2.900 kr.)
styrkja í gegnum Aur (@raudikrossinn / 1235704000)
styrkja í gegnum Kass (778 3609)
leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649
Gríðarstór COVID-19 bylgja herjar nú á berskjaldaða íbúa Malaví, eins þéttbýlasta lands Afríku. Líklegast þykir að hið bráðsmitandi suðurafríska afbrigði veirunnar hafi borist til landsins um og upp úr áramótum og var hlutfall jákvæðra prófa fyrstu vikur ársins allt að 30%. Faraldurinn náði fljótt veldisvexti og vitað er að vegna mjög takmarkaðrar skimunargetu er raunverulegur fjöldi tilfella að öllum líkindum mun hærri en fjöldi staðfestra tilfella. Fjöldi látinna eykst dag frá degi og illa gengur að ná böndum á útbreiðslu veirunnar.
Heilbrigðiskerfi þessa fátæka lands er komið að þolmörkum. Súrefni er af skornum skammti og sett hafa verið upp tjaldsjúkrahús til að reyna að anna álagi. Um 1.300 heilbrigðisstarfsmenn hafa greinst með veiruna og enn eru bólusetningar ekki hafnar í landinu.
Rauði krossinn eru stærstu hjálparsamtök Malaví
Tugþúsundir sjálfboðaliða félagins sinna mikilvægu hlutverki í viðbragðskerfi landsins. Við á Íslandi þekkjum vel mikilvægi þess að geta treyst á vel þjálfaða sjálfboðaliða um land allt - í borgum, bæjum og sveitum – þegar bregðast þarf hratt við og koma mikilvægum upplýsingum til skila.
Frá aldamótum hefur Rauði krossinn á Íslandi starfað náið með systurfélagi sínu í Malaví, bæði að verkefnum í þróunarsamvinnu og að ýmsum neyðaraðgerðum sem sífellt verða tíðari vegna hamfarahlýnunar. Frá því veiran greindist fyrst í Afríku hefur Rauði krossinn lagt áherslu á forvarnir og fræðslu um smitleiðir, mikilvægi handþvottar, grímunotkun, dreifingu hlífðarbúnaðar og þess að viðhalda nálægðarmörkum. Mikil vinna hefur farið í að leiðrétta sögusagnir og tryggja réttar upplýsingar.
Einhverjar alvarlegustu afleiðingar faraldursins tengjast lokunum skóla og almennum samkomutakmörkunum og margt fólk sem lifir við sárafátækt eygir litla von um að sjá sér farboða. Heimilisfofbeldi hefur aukist og merkja má aukningu í barnahjónaböndum og tíðni þungana meðal unglingsstúlkna hefur tekið mikið stökk.
Vinkonurnar Linda (14 ára) og Selina (13 ára) voru báðar á lokaári í grunnskóla þegar fyrsta bylgja COVID skall á og skólum landsins var lokað á síðasta ári. Milljónir berskjaldaðra barna á dreifbýlum svæðum misstu úr skóla í sex mánuði, ófær um að nýta sér fjarkennslu vegna þess að þau hafa hvorki aðgang að tölvu né interneti. Linda og Selina búa báðar hjá einstæðum mæðrum sínum og systkinum í litlu þorpi í Chikwawa héraði og dreymir um að mennta sig enn frekar. Þegar skólar höfðu staðið auðir í nokkra mánuði voru nokkrar af skólasystrum þeirra orðnar óléttar og giftar. Lindu, sem dreymir um að verða fyrsti læknir þorpsins, segist hafa neitað drengjum sem gerðu sér dælt við hana á þessu tímabili, “Ég ætla ekki að láta þá raska skólagöngu minni. Ég vil ekki gifta mig fyrr en ég er búin með skólann.”
Linda er á myndinni til vinstri og Selina hér að neðan.
Rauði krossinn leggur áherslu á að auka þekkingu stúlkna og kvenna um réttindi sín og mikilvægi skólagöngu ungmenna til að auka tækifæri sín. Ungliðahreyfing Rauða krossins er sterk og sinna sjálfboðaliðar hennar mikilvægu hlutverki í því að miðla fræðslu til jafnaldra sinna, veita sálrænan stuðning og virkja ungmenni til góðra verka í eigin samfélögum.
Verkefninu er ekki lokið. Mannkyn er ekki laust við þennan faraldur fyrr en búið er að ráða niðurlögum hans alls staðar. Tökum slaginn saman. Rauði krossinn veitir lífsbjargandi aðstoð í Malaví og fer þess nú á leit við fólk og fyrirtæki að þau styðji aðgerðirnar dyggilega.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.