Almennar fréttir
Neyðarsöfnun vegna COVID-19 í Malaví lokið
10. mars 2021
Faraldurinn óx hratt í byrjun árs í Afríkuríkinu.
Neyðarsöfnun Rauða krossins vegna COVID-19 í Malaví er lokið. Alls söfnuðust tæplega 600.000 krónur sem fara til eflingar Rauða krossinum í Malaví. Faraldurinn óx hratt í byrjun árs en aftur hefur náðst að hefta útbreiðsluna og fyrstu skammtar af bóluefni hafa borist til landsins. Heilbrigðiskerfi landsins er veikt fyrir og því afskaplega mikilvægt að koma böndum á útbreiðsluna hratt og örugglega.
Rauði krossinn eru stærstu hjálparsamtök Malaví
Tugþúsundir sjálfboðaliða félagins sinna mikilvægu hlutverki í viðbragðskerfi landsins. Við á Íslandi þekkjum vel mikilvægi þess að geta treyst á vel þjálfaða sjálfboðaliða um land allt - í borgum, bæjum og sveitum – þegar bregðast þarf hratt við og koma mikilvægum upplýsingum til skila.
Frá aldamótum hefur Rauði krossinn á Íslandi starfað náið með systurfélagi sínu í Malaví, bæði að verkefnum í þróunarsamvinnu og að ýmsum neyðaraðgerðum sem sífellt verða tíðari vegna hamfarahlýnunar. Frá því veiran greindist fyrst í Afríku hefur Rauði krossinn lagt áherslu á forvarnir og fræðslu um smitleiðir, mikilvægi handþvottar, grímunotkun, dreifingu hlífðarbúnaðar og þess að viðhalda nálægðarmörkum. Mikil vinna hefur farið í að leiðrétta sögusagnir og tryggja réttar upplýsingar.
Rauði krossinn vill þakka öllum þeim sem studdu við söfnunina fyrir þeirra mikilvæga framlag. Takk fyrir stuðninginn!
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.