Almennar fréttir
Námskeið fyrir verðandi sendifulltrúa Rauða krossins
07. nóvember 2023
Nýlega fór fram sendifulltrúanámskeið í Borgarnesi fyrir þau sem vilja fara erlendis sem sendifulltrúar og sinna hjálparstarfi á vettvangi eða þróunarsamvinnu með öðrum landsfélögum. Námskeiðið var alþjóðlegt og kynnti tilvonandi sendifulltrúa fyrir ýmsum hliðum starfsins.
Nýlega var haldið svokallað IMPACT sendifulltrúanámskeið, sem er fyrir verðandi sendifulltrúa Rauða krossins. Markmiðið með námskeiðinu er að gera tilvonandi sendifulltrúa sem best í stakk búna til að sinna hjálparstarfi á vettvangi vegna neyðarástands í kjölfar náttúruhamfara eða vegna stríðsátaka, eða að starfa að langtíma þróunarsamvinnu með öðrum landsfélögum Rauða krossins eða Rauða hálfmánans. Námskeiðið er forsenda þess að vera á útkallslista Rauða krossins fyrir alþjóðalegt hjálparstarf.
Þátttakendur voru alls 25 og komu frá ýmsum löndum, meðal annars Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Spáni.
Fjölbreytt fræðsla fyrir framandi störf
Á námskeiðinu kynnast tilvonandi sendifulltrúar starfi landsfélaga Rauða krossins, Alþjóðasambandsins (IFRC) og Alþjóðaráðsins (ICRC), auk þess sem þeir kynnast starfi á vettvangi og margvíslegum álitaefnum sem geta komið upp. Þau fá einnig fræðslu um öryggismál, daglegt líf sendifulltrúa á vettvangi og heilsufarsvandamál sem geta komið upp.
Námskeiðið skiptist í tvo hluta. Fyrst þurfa þátttakendur að fara í gegnum námskeið á vefnum sem lýkur með prófi og standist þeir það próf heldur þjálfun áfram á þessu vikulanga námskeiði, sem að þessu sinni var haldið á Varmalandi í Borgarnesi.
Aðal leiðbeinendurnir á námskeiðinu voru fulltrúar frá ICRC og IFRC, þeir Guive Rafatian og Jean-Pierre Taschereau, en auk þess sinnti starfsfólk og sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi einnig kennslu á námskeiðinu.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.