Almennar fréttir
Mikil þörf á aðstoð í sunnanverðri Afríku
27. mars 2019
Þú getur stutt starf Rauða krossins í sunnanverðri Afríku með 2900 króna framlagi með því að senda SMS skilaboðin HJALP í númerið 1900. Sú upphæð dugar 3 börnum fyrir mat í mánuð.
Þú getur stutt starf Rauða krossins í sunnanverðri Afríku með 2900 króna framlagi með því að senda SMS skilaboðin HJALP í númerið 1900. Sú upphæð dugar 3 börnum fyrir mat í mánuð.
Hjálparstarfsmenn vinna nú í kappi við tímann að bjarga mannslífum eftir að fellibylurinn Idai olli eyðileggingu og ofsaflóðum í sunnanverðri Afríku. Hamfarirnar eru þær mestu sem dunið hafa á þessu svæði í áratugi og ná til þriggja landa, Mósambík, Malaví og Zimbabwe. Meira en 700 eru þegar taldir af og reikna hjálparstarfsmenn við að tala látinna eigi eftir að aukast á næstu dögum.
Fellibylurinn og flóðin skilja eftir sig mikla eyðileggingu. Heimili hafa verið jöfnuð við jörðu, vegir eru eyðilagðir og brýr hafa skolast burt í flóðunum. Þá eru stór svæði og borgir án rafmagns og fjarskipti liggja niðri á svæðinu.
Hamfarirnar auka líkur á útbreiðslu alvarlegra smitsjúkdóma, meðal annars vegna skorts á hreinu drykkjarvatni. Þegar hefur orðið vart við kólóreusmit á svæðinu. Fjölmargir eru enn á flótta eða hafast við í fjöldahjálparstöðvum. Í Mósambík, sem hefur orðið hvað verst úti, er talið að fórnarlömb flóðanna séu um 1,8 milljón manns, um 600.000 manns hafa þurft að flýja heimili sín og yfir 17.000 heimili hafa jafnast við jörðu. Í Zimbabwe er ástandið einnig mjög alvarlegt. Þar hafa um 16.000 heimili jafnast við jörðu og um 250.000 manns hafa þurft að flýja heimili sín. Í Malaví ná áhrif flóðanna til um 850.000 íbúa og um 94.000 hafa þurft að flýja heimili sín.
Rauði krossinn á Íslandi hefur starfað náið með systurfélagi sínu í Malaví frá árinu 2002. Áhersla er lögð á að bæta til frambúðar heilbrigði, aðgang að hreinu vatni, auka hreinlæti og efla stúlkur til skólagöngu. Einnig hefur verið ráðist í umfangsmikil verkefni að bora eftir vatni. Rauði krossinn á Íslandi hefur líka staðið fyrir umfangsmiklum heilbrigðisverkefnum með systurfélagi sínu í Mósambík.
Ljóst er að þetta eru mestu náttúruhamfarir sem hafa orðið á þessu svæði í áratugi. Brýnt er að koma fórnarlömbum flóðanna til hjálpar sem allra fyrst áður en hungur og farsóttir byrja að herja á nauðstadda.
Þú getur stutt starf Rauða krossins í sunnanverðri Afríku með 2900 kr. framlagi með því að senda SMS skilaboðin HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.