Almennar fréttir

Migrant Talent Garden samstarfsverkefni

30. september 2019

Sjö Evrópulönd vinna saman að því að styðja við frumkvöðlastarf innflytjenda. Samstarfsaðilarnir komu í heimsókn sl. sumar og kynntu sér starf Rauða krossins.

Rauði krossinn í Reykjavík tók á móti samstarfsaðilum í Migrant Talent Garden (MTG) verkefninu 19. júní síðastliðið sumar. 

Rauði krossinn í Reykjavík er ásamt Caritas í Noregi ráðgjafi í samstarfsverkefni sjö Evrópulanda sem kallast Migrant Talent Garden. Tilgangur verkefnisins er að styðja við frumkvöðlastarf innflytjenda í styrkþegalöndunum, Lettlandi, Litháen, Búlgaríu, Grikklandi og Króatíu. 

Verkefnið er til fjögurra ára og hefur eftirfarandi markmið:

  • Rannsókn um bestu leiðir til að styðja við frumkvöðlastarf innflytjenda.
  • Tengslanet/stuðningsnet fyrir innflytjendur í frumkvöðlastarfi.
  • Heimasíða til upplýsinga fyrir innflytjendur sem eru áhugasamir um frumkvöðlastarf.
  • Miðstöð fyrir innflytjendur í frumkvöðlastarfi í styrkþegalöndum.
  • Viðskiptahraðal fyrir innflytjendur í styrkþegalöndum.

Verkefnið er styrkt af EES styrkjaprógramminu sem er fjármagnað af Noregi (95.8%), Íslandi (3%) og Liechtenstein (1.2%).

Verkefni Rauða krossins með fólki af erlendum uppruna (innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd) voru kynnt en verkefnum Rauða krossins á þessu sviði hafa fjölgað síðustu ár í kjölfar aukningu innflytjenda. Árið 2018 voru hér á landi um 43.736 innflytjendur, sem er um 12,6% af fólksfjölda. Þetta er um 50% aukning frá því um 2012, þegar innflytjendur voru aðeins um 8% fólksfjölda. Innflytjendur á Íslandi eru með mjög hátt atvinnuþátttökuhlutfall en um 19,2% af vinnuafli eru innflytjendur, en launin eru að meðaltali 8% lægri en laun heimamanna.

Árið 2018 fengu 148 einstaklingar alþjóðlega vernd á Íslandi, sem var aukning frá árinu á undan þegar 138 einstaklingar fengu vernd og 111 árið 2016. Flestir þessara einstaklinga eru frá Afganistan, Íran, Írak, Pakístan, Palestínu, Sómalíu og Sýrlandi. Einnig tekur Ísland árlega við kvótahópum en stærð þeirra hefur verið breytileg á milli ára. Íslenska ríkið, sem og Rauði krossinn, einblína nú á að bæta þjónustuna við þá sem koma hingað á eigin vegum og sækja um alþjóðlega vernd því mikill munur hefur verið á þjónustu við þá og kvótaflóttafólk.

\"migranttalentgarden\"

Þá voru sérstaklega kynnt þau verkefni sem Reykjavíkurdeild er með fyrir innflytjendur og flóttafólk, þar á meðal Opið hús þar sem boðið er upp á hagnýta aðstoð fyrir innflytjendur svo sem húsnæðisleit, ferilskráargerð og atvinnuleit. Um 600 einstaklingar hafa notið aðstoðar Opins húss síðan verkefnið byrjaði árið 2016. Deildin býður einnig upp á verkefni sem kallast Welcome to Iceland, eða Velkomin til Íslands, sem er samfélagsfræðsla fyrir innflytjendur. Verkefnið hefur útskrifað 80 nemendur á síðustu tveimur árum. Að lokum var verkefnið Leiðsögumenn flóttafólks kynnt sem er verkefni sem parar saman einn flóttamann við einn heimamann eða parar saman fjölskyldur. Þessi leið hefur sýnt sig að vera mjög góð leið til að greiða leið flóttafólks inn í samfélagið.

Hópurinn heimsótti svo Vinnumálastofnun þar sem við fengum kynningu á þeirri þjónustu sem þar er í boði fyrir innflytjendur og flóttafólk. Vinnumálastofnun hefur brugðist við aukningu flóttafólks með því að setja á laggirnar sérstakt teymi um atvinnumál flóttafólks, þar af er einn af sýrlenskum uppruna. Þau bjóða upp á aðstoð við ferilskráargerð, atvinnuleit og í sumum tilvikum viðtalsaðstoð. Vinnumálastofnun kynnti einnig samstarfsverkefni sem stofnunin var þátttakandi í sem hafði það að markmiði að styðja við konur af erlendum uppruna í starfshæfi, sjálfstrausti og frumkvöðlastarfi.

Síðasti hluti heimsóknarinnar var málstofa með Gerði Gestsdóttur, sérfræðingi á sviði innflytjendamála, og þriggja innflytjenda sem annars vegar höfðu reynslu í frumkvöðlastarfi á Íslandi og hins vegar sem þátttakendur á íslenskum vinnumarkaði. Umræðurnar voru einkar líflegar og áhugavert fyrir hópinn að heyra reynslu innflytjendanna og þeirra sjónarmið. Niðurstöður málstofunnar voru aðallega þær að það er greinanlegur munur á aðgengi innflytjenda að frumkvöðlastarfi, sérstaklega vegna tungumálaörðuleika og þekkingarleysis á íslensku laga- og skattaumhverfi. Innflytjendur búa einnig við minna bakland og minna aðgengi að tengslaneti og því erfiðara að fá aðstoð og leiðsögn. Innflytjendurnir sammældust hins vegar um það að það sé tiltölulega auðvelt að hefja rekstur hér á landi, miðað við önnur lönd, bæði vegna þess að skrifræði á Íslandi er ekki svo mikið og flestir á Íslandi tala ensku. Þátttakendur málþingsins voru einnig sammála um að innflytjendur væru á ákveðinn hátt betur í stakk búnir að takast á við áhættuna og óvissuna sem felst í frumkvöðlastarfi vegna þess að þeir eru vanir að takast á við óvissu eftir flutning til nýs lands.

Þann 8. október kl. 16:00 verður kynning á Migrant Talent Garden verkefninu í Efstaleiti 9 og er hún öllum opin sem hafa áhuga á málefnum innflytjenda og frumkvöðlastarfi.