Almennar fréttir
Magnús Hallgrímsson fyrrum sendifulltrúi Rauða krossins látinn
13. nóvember 2020
Magnús var öflugur sendifulltrúi og lét sig sjaldan vanta á viðburði á vegum Rauða krossins.
Magnús Hallgrímsson verkfræðingur starfaði fyrir Rauða krossinn bæði innanlands og á erlendum vettvangi frá árinu 1980. Hann fór í fjölda starfsferða fyrir Rauða krossinn á Íslandi, hans fyrsta ferð var í flóttamannabúðum í Indónesíu sem voru í sameiginlegri umsjón Alþjóðaráðs Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hann starfaði einnig í Eþíópíu fyrir hönd Rauða krossins sem og í Jórdaníu, Írak og Aserbaijan.
Það var ekki aðeins Rauði krossinn sem naut starfskrafa hans en Magnús starfaði einnig fyrir friðargæslu utanríkisráðuneytisins, fyrir ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og var einn af stofnendum Flugbjörgunarsveitarinnar.
Magnús lét sig sjaldan vanta á viðburði á vegum Rauða krossins, sérstaklega tengdum alþjóðaverkefnum hvort sem um opna fyrirlestra, fræðslu fyrir sendifulltrúa eða samveru sendifulltrúa og sjálfboðaliða var að ræða.
Magnús fékk fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á ýmsum vettvangi m.a. riddarakross forseta Íslands árið 2003 fyrir hjálpar- og endurreisnarstörf á erlendum vettvangi, heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands árið 1993 og var gerður að heiðursfélaga í Jöklarannsóknarfélagi Íslands árið 2010. Þá fékk Magnús heiðursviðurkenningu á aðalfundi Rauða krossins vorið 2018.
Við vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð en minningin um góðan mann lifir.
Magnús fékk heiðursviðurkenningu á aðalfundi Rauða krossins 2018.
Magnús að störfum í Írak.
Magnús lét sig sjaldan vanta á viðburði Rauða krossins. Hér er hann með Stefáni Pálssyni sem vann lengi hjá Rauða krossinum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Um tíu milljónir söfnuðust fyrir íbúa Gaza
Alþjóðastarf 14. mars 2025Tæplega tíu milljónir króna söfnuðust í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi (RKÍ) fyrir íbúa Gaza. Söfnunin hófst í janúar og er nú lokið. „Enn og aftur sýna landsmenn að þeir eru til staðar fyrir fólk í mikilli neyð,“ segir Sólrún María Ólafsdóttir, teymisstjóri alþjóðaverkefna hjá Rauða krossinum.

Sunna Ósk ráðin upplýsingafulltrúi
Almennar fréttir 10. mars 2025Sunna Ósk Logadóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Hún hefur þegar tekið til starfa.

Aðalfundur Rauða krossins í Fjarðabyggð
Almennar fréttir 06. mars 2025Aðalfundur Rauða krossins í Fjarðabyggð verður haldinn fimmtudaginn 13. mars kl. 18:00 í Múlanum - samvinnuhúsi, Bakkavegi 5, 740 Neskaupsstað