Almennar fréttir
Lofsverðar gjafir sem mætti vera meira um
16. september 2019
Gylfi Magnússon segir eignir styrktarsjóða Háskóla Íslands nema tæpum sex milljörðum króna. Vel heppnað málþing um erfðagjafir í Iðnó.
Á föstudag var haldið málþing um erfðagjafir í Iðnó.
„Hugmyndin um erfðagjafir til góðra mála er lofsverð og mætti gjarnan vera meira um þær hér á landi,“ sagði Gylfi Magnússon, dósent og formaður stjórnar styrktarsjóða Háskóla Íslands. Gylfi flutti erindi á málþingi sjö góðgerðafélaga í Iðnó í dag um erfðagjafir, á alþjóðlegum degi erfðagjafa. Erfðagjafir felast í að ánafna hluta af eigum sínum eftir sinn dag til málefnis sem viðkomandi er annt um.
Í máli sínu fór Gylfi yfir það hvernig erfðagjafir, sem og aðrir góðir styrkir, hafa nýst háskólanum í gegnum tíðina. Gylfi sagði styrktarsjóði Háskóla Íslands vera 45 talsins í dag og að þeir, sem og styrkirnir, væru skólanum mikilvægir. Skiljanlega væru sjóðirnir misstórir en eignir þeirra nema að sögn Gylfa tæpum sex milljörðum króna og veittu þeir styrki upp á 104 milljónir króna í fyrra. Stærstur þeirra væri Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands með helming heildareign sjóðanna sem hefði veitt styrki upp á 1,2 milljarða króna frá árinu 2006. Gylfi fór yfir hina ýmsu sjóði háskólans, söguna, stóra gefendur og starfsemi.
Sagði Gylfi íslenska skattalöggjöf almennt ekki mjög hagfellda styrktarsjóðum. Erfðagjafir eru þó undanskildar erfðafjárskatti þökk sé nýlegum lagabreytingum.
Á málþinginu tók einnig til máls Bjarnfreður Ólafsson lögmaður og fór yfir atriði tengd erfðaskrám og erfðagjöfum. Lagði hann mikla áherslu á mikilvægi þess að vandað væri til verka við að útbúa erfðaskrár og gjafir af þessu tagi. Tók hann mörg dæmi þess hvernig minnstu smáatriði geta oft orðið til að flækja málin.
Málþingið í dag var hápunktur vitundarátaks sem Almannaheill, Blindrafélagið, Krabbameinsfélagið, Rauði krossinn, SOS Barnaþorp, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og UNICEF á Íslandi standa að. Yfirskrift átaksins er „Gefðu framtíðinni forskot.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.

Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.