Almennar fréttir
Kristín S. Hjálmtýsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
02. desember 2024
Stjórn Rauða krossins á Íslandi og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin 9 ár, hafa gert samkomulag um starfslok hennar. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði Kristínar, sem hefur nú þegar látið af störfum.
Arna Harðardóttir sem gengt hefur starfi fjármálastjóra mun taka við verkefnum framkvæmdastjóra samhliða sínum störfum þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Staðan verður auglýst innan skamms.
Silja Bára R. Ómarsdóttir, stjórnarformaður Rauða krossins á Íslandi: „Við þökkum Kristínu fyrir hennar ómetanlega og óeigingjarna framlag til Rauða krossins á Íslandi. Undir hennar stjórn hefur félagið tekist á við mörg krefjandi verkefni, þar á meðal náttúruhamfarir, heimsfaraldurinn Covid-19 þar sem Rauði krossinn stóð í stafni viðbragðsaðila og nú síðast undirbúning fyrir 100 ára afmæli félagsins. Kristín hefur verið ötull talsmaður mannúðar og þeirra sem minnst mega sín.
Um leið erum við lánsöm að geta leitað til Örnu Harðardóttur, sem mun leiða félagið af öryggi og fagmennsku þar til nýr framkvæmdastjóri tekur til starfa. Við treystum henni fullkomlega til að halda áfram mikilvægu starfi félagsins.“
Kristín S. Hjálmtýsdóttir: „Það hafa verið forréttindi að starfa hjá Rauða krossinum á Íslandi síðastliðin 9 ár því þar starfar hópur afburða fagfólks sem ætíð hefur lagt megináherslu á að styðja þá sem minnst mega sín. Ég kveð félagið með stolti þegar ég hugsa til þess sem áunnist hefur á þessum tíma, reksturinn hefur gengið vel, fjárhagurinn er traustur, verkefnastaðan góð og staða RKÍ í samfélaginu, þrátt fyrir allt sem á hefur dunið, er sterk. Ég óska Rauða krossinum á Íslandi alls hins besta í framtíðinni og þakka öllu starfsfólki, sjálfboðaliðum og öðru samferðarfólki innan og utan félagsins fyrir einstaklega gott samstarf."
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mínútu þögn til minningar um fallna kollega
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Starfsfólk Rauða krossins á Íslandi kom saman í mínútu þögn fyrir utan skrifstofur félagsins í dag til að minnast kollega sem drepnir hafa verið við mannúðarstörf á Gaza og víðar undanfarið.

Mikil neyð í Mjanmar
Alþjóðastarf 02. apríl 2025Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar eru að störfum við erfiðar aðstæður á hamfarasvæðum eftir jarðskjálftana miklu.

Bráðaliðar drepnir við störf sín
Alþjóðastarf 31. mars 2025Alþjóðaráð Rauða krossins segir svívirðilegt að átta bráðaliðar á vegum palestínska Rauða hálfmánans, auk starfsmanna almannavarna á Gaza og Sameinuðu þjóðanna, hafi verið drepnir við störf sín á svæðinu.