Almennar fréttir
Krabbameinsfélagið gefur sokka til verkefna Rauða krossins
28. apríl 2021
Rauði krossinn fékk í gær ríflega 500 sokkapör að gjöf frá Krabbameinsfélaginu. Sokkunum verður komið áfram til umsækjenda um alþjóðlega vernd, notenda Frú Ragnheiðar og gesta Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.
Lóan er löngu komin, hefur kveðið burt snjóinn og það er komið sumar og um leið tilefni til að gefa sumargjafir. Krabbameinsfélagið ákvað að nýta tækifærið og safnaði saman um 520 sokkapörum sem hafa verið til sölu í Mottumars, árveknisátaki um krabbamein í körlum, til að gefa skjólstæðingum nokkurra verkefna Rauða krossins á Íslandi Á hverju ári seljast allt frá 15 til 25 þúsund sokkapara í átakinu, sem gerir það að verkum að ómögulegt reynist að spá fyrir um nákvæma tölu seldra sokka.
Það var Krabbameinsfélaginu hjartans mál að þessir glæsilegu sokkar kæmust í notkun og kom upp sú hugmynd að Rauði krossinn á Íslandi væri best til þess fallinn að koma þeim í góðar hendur – eða á góða fætur réttara sagt. Þau sem nýta sér þjónustu og úrræði Rauða krossins geta því átt von á litríkum sokkum sem eru einstaklega heppilegir til að klæðast nú þegar hitastigið verður æ skaplegra og hillir undir rýmkun á samkomutakmörkunum sem hafa haft áhrif mörg af verkefnum félagsins.
\"Þegar þessi hugmynd kom upp þá var aldrei spurning að af henni yrði,\" sagði Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Sokkarnir eru einstaklega þægilegir og flottir að okkar mati og vonandi eru viðtakendur þeirra sama sinnis. Við vonum innilega að þeir komi að góðum notum. Það er nú svo afskaplega þægilegt að smeygja sér í nýja sokka, um það erum við öll sammála.
Það var Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, sem tók við sumarsokkagjöfinni frá Höllu við höfuðstöðvar Rauða krossins í Efstaleiti:
Við kunnum Krabbameinsfélaginu okkar bestu þakkir fyrir þessa rausnarlegu og litríku sumargjöf. Ég er sannfærður um að sokkunum verði tekið fagnandi og muni koma að góðum notum hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd, notendum skaðaminnkunar Frú Ragnheiðar og gestum Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.