Almennar fréttir
Karlar í skúrum Vesturbyggð
16. maí 2019
Karlar í skúrum Vesturbyggð hefur nú verið starfrækt á Patreksfirði. Þetta er þriðji staðurinn á landinu þar sem Rauði krossinn stendur fyrir slíku verkefni.
Verkefni Barðastrandarsýsludeildar Karlar í skúrum hefur nú farið af stað á Patreksfirði og nefnist það Karlar í skúrum í Vesturbyggð, en til Vesturbyggðar teljast Bíldudalur, Patreksfjörður og sveitirnar þar í kring. Auk þess er Tálknafjörður á starfssvæði Rauða kross deildarinnar.
Þetta er því þriðji staðurinn á landinu þar sem Rauði krossinn stendur fyrir Karlar í skúrum, en einnig er boðið upp á þessa aðstöðu í Breiðholti og Hafnarfirði.
Karlar í skúrum er verkefni Rauða krossins sem opið er fyrir alla karlmenn 18 ára og eldri, þar sem skapað er rými, í skúrum, til þess að hittast, spjalla, huga að áhugamálum sínum og vinna að sameiginlegum handverkefnum.
Hörður Sturluson, verkefnastjóri Karlar í skúrum segir að kynningarfundur verkefnisins sem haldinn var nýlega á Patreksfirði, hafi gengið vonum framar. Á fundinn mættu 5 karlar sem allir eru komnir inn í verkefnið. Tveir af þeim sitja nú í stjórn Karlar í skúrum Vesturbyggð og því einnig orðnir sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum í Barðastrandarsýslu. Ásamt þeim mætti Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar og Helga Gísladóttir formaður Rauða krossins í Barðastrandasýslu. Sveitarfélagið útvegar aðstöðuna endurgjaldslaust.
Hörður segist hafa fundið fyrir mikilli jákvæðni meðal karlanna, en þeir munu svo sjá um að gera aðstöðuna snotra og mun starfsemin líklegast byrja á fullu í haust. Þá segir Hörður að reynslan sýni að þegar húsnæðið fari að taka á sig mynd þá fjölgi mikið þátttakendum í verkefninu.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.