Almennar fréttir

Íslensk stjórnvöld styðja verkefni Rauða krossins í Afríku

10. júlí 2020

Utanríkisráðuneytið hefur veitt Rauða krossinum á Íslandi fjárstuðning til næstu fjögurra ára til að halda áfram langtímauppbyggingu í fjórum löndum Afríku.

Utanríkisráðuneytið hefur veitt Rauða krossinum á Íslandi fjárstuðning til næstu fjögurra ára til að halda áfram langtímauppbyggingu í fjórum löndum Afríku. Verkefnin eru Aukinn viðnámsþróttur nærsamfélaga í Malaví og Brúun hins stafræna bils í Gana, Malaví, Sierra Leone og Suður-Súdan. Einnig er um að ræða rúmlega 27 milljóna króna styrk til veitingu mannúðaraðstoðar til stríðhrjáðra í Sýrlandi.

Aukinn viðnámsþróttur nærsamfélaga

Í Malaví vinnur Rauði krossinn að metaðarfullri uppbyggingu og valdeflingu á nokkrum áherslusviðum: Heilbrigði, vatn & hreinlæti, félagsleg aðild & valdefling, neyðarvarnir og uppbygging öflugs landsfélags.

Verkefnið bætir aðgengi berskjaldaðs fólks dreifbýlum svæðum að heilbrigðisþjónustu sem m.a. felur í sér aukna mæðra- og ungbarnavernd. Þá er aðgengi að öruggu drykkjarvatni stóraukinn og fræðsla um mikilvægi hreinlætis veitt, auk þess sem salerni eru byggð við skóla, með aðstöðu fyrir stúlkur á blæðingum til að sinna sínum þörfum. Fjölda berskjaldaðra barna er tryggð skólaganga og áhersla lögð á að styðja stúlkur til bæði grunn- og gagnfræðaskólagöngu.

Þá hljóta ungmenni í samfélögunum ýmsa fræðslu og þjálfun í lífsleikni og til þess að standa að jákvæðum breytingum í samfélögum sínum. Þau fá t.a.m. þjálfun til þess að sannfæra og vinna með heilbrigðisyfirvöldum í að auðvelda ungmennum aðgengi að heilbrigðisþjónustu sveitarfélaga, m.a. á sviði kynheilbrigðis (e. sexual and reproductive health). Aðgengi berskjaldaðra fórnarlamba ofbeldis að dómsvaldi er aukið, m.a. í kynferðisofbeldismálum, sem refsileysi einkennir því miður víða á umræddum svæðum.

Síðast en ekki síst ber að nefna stórauknar neyðarvarnir á verkefnasvæðunum, sem sífellt verða fyrir tíðari hamförum af völdum loftslagsbreytinga.

Allt starf Rauða kross hreyfingarinnar byggir á sjálfboðnu starfi. Íbúar á verkefnasvæðunum tilnefna sjálf og kjósa þá aðila sem sinna starfi sjálfboðaliða Rauða krossins yfir verkefnistímabilið. Sjálfboðaliðarnir fá yfirgripsmikla fræðslu á áherslusviðum verkefnisins og þjálfun í að miðla henni til íbúanna í nærsamfélagi sínu. Þekkingin verður þannig eftir í samfélaginu löngu eftir að formlegri fræðslu og uppbyggingu lýkur og verkefnið færist yfir á ný nærliggjandi svæði.

 

Brúun hins stafræna bils

Áreiðanleg upplýsinga- og samskiptatækni skiptir sköpum þegar kemur að hjálparstarfi og næstu fjögur árin mun Rauði krossinn á Íslandi styðja systurfélög sín í Gana, Malaví, Sierra Leone og Suður-Súdan í að byggja og efla notkun landsfélaga á tækninni svo þau megi framkvæma hjálparstarf sitt með meiri skilvirkni og hagkvæmni.

Nú sem aldrei fyrr erum við minnt á mikilvægi tækninnar þegar hjálparsamtök um heim allan þurfa að reiða sig á tækni til þess að miðla upplýsingum um COVID-19 til berskjaldaðra samfélaga og samræma aðgerðir innan samtaka og við aðrar hjálparstofnanir með fjarfundarbúnaði og á samskiptaforritum.

Fjölmörg landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans víða um heim glíma við miklar hindranir á sviði upplýsinga og samskiptatækni og hvergi standa landsfélög hreyfingarinnar frammi fyrir meiri áskorunum um skilvirka notkun tækninnar en í minnst þróuðum löndum Afríku. Þegar kemur að neyðar- og mannúðarstarfi getur slíkt skilið á milli lífs og dauða. Sér í lagi þar sem hamfarasvæði eru oft fjarri höfuðstöðvum hjálparstofnana. Þá skiptir höfuðmáli að tryggja rafmagn, stöðugt internetsamband og áreiðanleg samskiptaforrit.

Fjögur íslensk fyrirtæki hafa komið að verkefninu: Íslandsbanki, Reiknistofa bankanna, Sýn og Þekking. Fyrirtækin hafa lánað Rauða krossinum sérfræðinga í upplýsinga- og samskiptatækni, félaginu að kostnaðarlausu. Sérfræðingarnir fara á vettvang til að meta þarfir Rauða kross félaganna og vinna svo náið með landsfélögunum við uppbygginguna.

Mannúðaraðstoð til stríðshrjáðra í Sýrlandi

Átökin í Sýrlandi hafa nú varað á tíunda ár með miklu mannfalli, fólksflótta og eyðileggingu grunninnviða. Gríðarleg tjón hefur orðið á heimilum fólks og innviðum landsins eins og sjúkrahúsum og heilsugæslustöðum, en stór hluti heilbrigðiskerfis landsins er óstarfshæfur vegna eyðileggingar en einnig hafa hundruðir heilbrigðisstarfsmanna týnt lífi og neyðst til að flýja átakasvæði. Lífsskilyrði íbúa á ótryggum svæðum og þeirra sem eru á flótta eru afar erfið þar sem aðgangur að mat og öðrum lífsnauðsynjum er takmarkaður og erfitt reynist að tryggja framleiðslu matvæla og afla tekna vegna eyðilegginar á búnaði og innviðum. Milljónir íbúa hafa látist, horfið og orðið fyrir áverkum og ofbeldi, meðal annars kynferðislegu ofbeldi. Samhliða langvarandi stríðsástandi standa íbúar landsins nú einnig frammi fyrir COVID-19 sem eykur enn frekar á ótryggt efnahagsástand og veika grunnþjónustu eins og aðgang að matvælum, vatni og læknisaðstooð.

Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur starfað í Sýrlandi í áraraðir og veitt þolendum stríðsátaka mannúðaraðstoð í samstarfi við sýrlenska Rauða hálfmánanna (SARC) frá því átökin hófust í landinu vorið 2011. Alþjóðaráðið sendi frá sér neyðarbeiðni vegna ástandsins í Sýrlandi í upphafi árs og ákvað Rauði krossinn á Íslandi að verða við þeirri beiðni. Alls hefur Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, styrkt mannúðaraðgerðir Alþjóðaráðs Rauða krossins í Sýrlandi um tæplega 70 milljónir króna frá því í nóvember 2019.

Fjármagnið ýtir undir getu Alþjóðaráðsins og SARC við að sinna brýnustu þörfum viðkvæmustu hópa landsins, dreifa matvælum og vatni, sinna viðgerðum á vatns- og rafmagnsveitum og styðja við heilbrigðisþjónustu í þeim landshlutum sem hvað verst hafa orðið úti í átökum. Sérstök áhersla er lög- á efnislega aðstoð við heilbrigðisstofnanir, en einnig þjálfun heilbrigðisstafsfólks, þar með talið getu þeirra til að veita læknis- og sálræna aðstoð til þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Einnig er sérstök áhersla lögð á að veita fólki á flótta innan landsins mannúðaraðstoð, meðal annars í Al Hol búðunum í norðaustur héruðum landsins sem hýsa um 70 þúsund einstaklinga, aðallega konur og börn. Þar starfrækir Alþjóðaráð Rauða krossins vettvangssjúkrahús sem sinnir veikum og særðum, en sex sendifulltrúar frá Rauða krossinum á Íslandi hafa starfað á sjúkrahúsinu síðan það var opnað vorið 2019.