Almennar fréttir
Hólmfríður sendifulltrúi Rauða krossins að störfum í Sýrlandi
11. apríl 2019
Rauði krossinn á Íslandi hefur sent Hólmfríði Garðarsdóttur sendifulltrúa til Sýrlands til þess að sinna hjálparstarfi í Al Hol flóttamannabúðunum í norðaustur-Sýrlandi.
Rauði krossinn á Íslandi hefur sent Hólmfríði Garðarsdóttur sendifulltrúa til Sýrlands til þess að sinna hjálparstarfi í Al Hol flóttamannabúðunum í norðaustur-Sýrlandi. Hólmfríður er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir með meistaragráðu í lýðheilsufræðum þróunarlanda og hefur starfað á hamfara- og átakasvæðum á vegum Rauða krossins í yfir 20 ár. Hólmfríður tekur þátt í að meta aðstæður og samhæfa viðbrögð Rauða krossins á sviði heilbrigðismála í Al Hol flóttamannabúðunum.
Flóttamannabúðirnar Al Hol eru staðsettar í norðausturhluta Sýrlands. Athygli hefur vakið að í fjölmiðlum hafa birst staðhæfingar um að þarna séu niðurkomnir svokallaðir ,,erlendir vígamenn‘‘ (e. Foreign Fighters) stríðandi fylkinga og fjölskyldur þeirra. Raunin er þó sú að flóttamannabúðirnar hýsa um 74.000 einstaklinga og um 90% af því fólki eru konur og börn, sem mörg hver eru fylgdarlaus og yfirgefin. Fjöldi flóttamanna í búðunum hefur fjölgað mikið á stuttum tíma og ljóst að aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu er ábótavant. Slæmur aðbúnaðar og mikill kuldi á svæðinu hefur því miður orðið til þess að mikill fjöldi barna hefur látið lífið á undanförnum vikum.
Rauða kross hreyfingin útvegar flóttafólki í búðunum 9.000 máltíðir á dag, ferjar um 100.000 lítra af hreinu drykkjarvatni daglega og hefur komið upp 176 salernum í Al Hol búðunum. „Við erum að gera okkar allra besta, í samstarfi við Rauða hálfmánann í Sýrlandi, til að mæta grunnþörfum flóttafólks í Al Hol, en það er ljóst að það þarf mikið meira til; fleiri tjöld, meira vatn, hreinlæti og læknisaðstoð,“ segir Peter Maurer, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins eftir 5 daga vettvangsferð í Sýrlandi.
Mynd: flóttamannabúðirnar Al hol / ICRC / Cynthia Lee
„Það er algjört forgangsatriði að koma mannúðaraðstoð inn á svæðið, óháð því hver uppruni fólksins er,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi. Hornsteinn alþjóðlegra mannúðarlaga eru Genfarsamningarnir, en markmið þeirra er að tryggja lágmarksmannréttindi á ófriðartímum og kveða m.a. á um vernd óbreyttra borgara, með áherslu á konur og börn. Sem hluti af alþjóðahreyfingu gegnir Rauði krossinn á Íslandi jafnframt því hlutverki að kynna og gera grein fyrir mikilvægi alþjóðlegra mannúðarlaga og samninga. „Mikilvægi þess hlutverks kristallast í viðvarandi átökum í Sýrlandi,“ segir Atli sem bætir við að Rauði krossinn á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins, hafi lagt mikla áherslu á að koma þolendum vopnaðra átaka í Sýrlandi til aðstoðar. „Með aðstoð okkar viljum við ekki bara sinna lífsbjargandi aðstoð, heldur um leið flýta fyrir uppbyggingu þegar friður kemst á, m.a. með uppbyggingu innviða í Sýrlandi svo þolendur átakanna hafi aðgengi að t.d. hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu sem og þeir sem kunna að snúa til baka að átökunum loknum.“
Hægt er að leggja starfi Rauða krossins lið með því að gerast Mannvinur Rauða krossins á heimasíðu félagsins: http://www.raudikrossinn.is
Mynd: Flóttamannabúðirnar AL hol / ICRC / Cynthia Lee
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.