Almennar fréttir
Framlög vegna átaka
08. júní 2022
Rauði krossinn hefur alls safnað tæpum 263 milljónum króna í tengslum við átökin í Úkraínu, þar af er framlag Marel 37 milljónir króna og utanríkisráðuneytið 70 milljónir króna.
Af söfnunarfénu hefur alls 191.100.000 verið ráðstafað til verkefna.
Þar af hafa 65 milljónir króna farið í hjálparstarf innan Úkraínu, 35 milljónir króna til aðstoðar úkraínsku flóttafólki í Úkraínu og 65 milljónir króna til hjálparstarfa sem sendifulltrúar Rauða krossins sinna bæði innan Úkraínu og í nágrannaríkjum. Þá hefur 25 milljónum króna verið ráðstafað og eyrnarmerktar til aðstoðar við flóttafólk á Íslandi.
Þeim fjármunum sem eftir eru verður ráðstafað eftir þörfum á næstunni en ljóst er að gríðarlega mikil uppbyggingin er framundan í Úkraínu og flóttafólki heldur því miður áfram að fjölga.

Afleiðingar átakanna í Úkraínu eru ekki aðeins miklar fyrir íbúa landsins heldur einnig gífurlegar um allan heim. Víðsvegar í Afríku hefur fæðuóöryggi verið mikið sl. ár vegna mikilla öfga í veðurfari; þurrka og flóða, með tilheyrandi uppskerubresti. Sum ríki Afríku reiða sig mjög á hveiti frá bæði Rússlandi og Úkraínu, líkt og til dæmis Sómalía og Eþíópía. Þá munu aðföng eins og matarolía, áburður og önnur tól til ræktunar hækka í verði með ófyrirséðum afleiðingum fyrir fólk. Einn af hverjum fjórum einstaklingum í Afríku býr við alvarlegt fæðuóöryggi, Sómalía rambar á barmi hungursneyðar og ástandið á „horni Afríku“ er grafalvarlegt.
Rauði krossinn mun héðan í frá útvíkka söfnun sína til verkefna sem tengjast afleiðingum átakanna ekki aðeins beint heldur einnig óbeint. Ljóst er að fæðuóöryggi í heiminum hefur viðamiklar afleiðingar fyrir öll, sérstaklega þau sem búa í fátækari ríkjum heims.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Bráðaliðar drepnir við störf sín
Alþjóðastarf 31. mars 2025Alþjóðaráð Rauða krossins segir svívirðilegt að átta bráðaliðar á vegum palestínska Rauða hálfmánans, auk starfsmanna almannavarna á Gaza og Sameinuðu þjóðanna, hafi verið drepnir við störf sín á svæðinu.

Þróunarsamvinna aldrei mikilvægari en nú
Almennar fréttir 28. mars 2025Bakslag í mannréttindum og minnkandi stuðningur við þróunarsamvinnu verður til umræðu á opnum fundi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 1. apríl.

Efla seiglu með fræðslu og stuðningi
Innanlandsstarf 28. mars 2025Styrkur frá Rio Tinto hefur gert Rauða krossinum kleift að veita Grindvíkingum margvíslegan félagslegan stuðning á erfiðum tímum. Áfram verður haldið að styðja við þá og aðra íbúa á Suðurnesjum.