Almennar fréttir
Eliza Reid heimsótti Rauða krossinn í gær
19. mars 2020
Eliza Reid, forsetafrú, heimsótti í dag starfstöð Rauða krossins við Efstaleiti, þar sem sjálfboðaliðar svara dag og nótt í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og færði þeim heimabakaðar kökur.
Eliza Reid, forsetafrú, heimsótti í dag starfstöð Rauða krossins við Efstaleiti, þar sem sjálfboðaliðar svara dag og nótt í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og færði þeim heimabakaðar kökur.
Mikið álag hefur verið á Hjálparsímanum upp á síðkastið, en auk þess að veita sálrænan stuðning tekur síminn einnig við yfirfalli frá símanúmeri Læknavaktarinnar 1700. Undanfarna sólarhringa hafa sjálfboðaliðar Hjálparsímans aldrei svarað jafn mörgum símtölum.
Eliza starfaði sjálf sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn fyrst þegar hún flutti til Íslands. „Mannvinir og sjálfboðaliðar Rauða krossins eiga þakkir skilið. Það er greinilegt að framlag þeirra skiptir gríðarlegu máli á tímum sem þessum,“ segir Eliza Reid.
„Sjálfboðaliðar Hjálparsímans og sóttvarnarhússins sinna afar mikilvægu hlutverki um þessar mundir og standa sig eins og hetjur. Sjálfboðaliðar sem sinna ýmsum verkefnum sem beinast að því að rjúfa félagslega einangrun hafa jafnframt sýnt einstakan sveigjanleika í starfi sínu, til dæmis með því að breyta verkefnum sínum úr heimsóknarvin yfir í símavin. Ljóst er að verkefni Rauða krossins munu aukast næstu vikur og við viljum þakka þann hlýhug og velvilja sem félagið hefur fundið fyrir frá almenningi síðustu daga en bæði hefur bæst í hóp Mannvina og sjálfboðaliða,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Mannvinir eru mánaðarlegir styrktaraðilar Rauða krossins. Á álagstímum sem þessum skiptir framlag þeirra öllu máli. Hér er hægt að leggja Rauða krossinum lið.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.