Almennar fréttir

Coca-Cola styður við Hjálparsímann 1717 vegna Covid 19 faraldursins

07. maí 2020

Rauða krossinum á Íslandi hefur borist veglegur stuðningur frá The Coca-Cola Foundation til styrktar Hjálparsíma og netspjalli Rauða krossins, 1717. 

Rauða krossinum á Íslandi hefur borist veglegur stuðningur frá The Coca-Cola Foundation til styrktar Hjálparsíma og netspjalli Rauða krossins, 1717. Stuðningurinn kemur til móts við stóraukna eftirspurn eftir þjónustunni í kjölfar Covid -19 faraldursins.

„Símtölum og netspjöllum hefur fjölgað um meira en helming á undanförnum vikum og ljóst er að kórónuveiran hefur víðtæk áhrif á samfélagið. Það er mikilvægt fyrir fólk að vita að það getur alltaf haft samband“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, en árlega berast um 15.000 mál inn á borð 1717 sem eru jafn ólík og þau eru mörg. „Það sem af er ári eru samtölin orðin yfir 11.000 og því um mikla aukningu að ræða. Við höfum brugðist við með auknum mannskap og erum afar þakklát fyrir stuðning Coca-Cola á þessum tímum sem gerir okkur enn betur kleift að svara og aðstoða alla þá sem til okkar leita. Í desember síðastliðnum skrifuðu Coca-Cola European Partners á Íslandi og Rauði krossinn undir samning um stuðning til þriggja ára, en þessi styrkur kemur aukalega vegna þess ástands sem skapast hefur vegna útbreiðslu kórónaveirunnar og afleiðinga hennar.“

Saman getum við haft raunveruleg áhrif

„Frá upphafi faraldursins höfum við einbeitt okkur að því að halda starfsfólki okkar öruggu en einnig hugað að því hvernig við getum stutt við samfélagið okkar á þessum erfiðu tímum,“ segir Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi. „The Coca-Cola Company, samstarfsfyrirtæki um átöppun og the Coca-Cola Foundation hafa sammælst um að veita 120 milljónum bandaríkjadala (um 17,5 milljörðum íslenskra króna) til hjálparstarfs víðs vegar um heim vegna Covid-19 faraldursins, bæði með fjárframlögum til hjálparsamtaka og með því að gefa nauðsynjavörur til fólks í framvarðasveitum.

Á Íslandi var ákveðið að styðja við hið frábæra starf sem Rauði krossinn á Íslandi vinnur og okkur er sönn ánægja að geta stutt við það mikilvæga hlutverk sem Hjálparsíminn og netspjall 1717 gegnir. Við erum öll í þessu saman, og saman getum við haft raunveruleg áhrif.“

Ekkert vandamál er of stórt eða lítið

Um 100 manna hópur sjálfboðaliða starfar við símsvörun og spjall fyrir Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins: „Ekkert vandamál er of stórt eða lítið og hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru í íslensku samfélagi,“ segir Kristín.

Coca-Cola á Íslandi hefur stutt við verkefni Rauða krossins á Íslandi í mörg ár, meðal annars við að koma vatni til Malaví og að styðja við börn flóttafólks með aðgengi að tómstundum. Þá er gaman að geta þess að Coca-Cola hefur unnið með Alþjóða Rauða krossinum að góðum verkum í yfir 100 ár.

\"The-Coca-Cola-Foundation_logo_jpg\"