Almennar fréttir
Brimborg styrkir starf Rauða krossins fyrir flóttafólk
24. nóvember 2022
Þörfin fyrir öruggan stað hefur farið vaxandi á heimsvísu undanfarin misseri. Grundvallarforsenda mannlegrar framþróunar er andlegt, líkamlegt og afkomulegt öryggi og Ísland er einn þeirra staða sem gefur hvað öruggustu fyrirheitin fyrir þau sem skortir þetta öryggi.
Ísland er í augum heimsbyggðarinnar fyrirmyndarsamfélag og það er markmið Íslendinga að taka vel á móti flóttafólki sem hingað kemur í leit að öryggi. Því hefur Brimborg ákveðið að veita starfi Rauða krossins fyrir flóttafólk styrk sem nemur 6 milljónum króna, en styrknum er ætlað að styðja við flóttafólk og markmið Brimborgar um að tryggja fólki öruggan stað.
Rauði krossinn á Íslandi er hluti af stærstu mannúðarsamtökum heims og fjöldi fólks sem leitar til Íslands hefur aukist mikið að undanförnu, ekki síst vegna átakanna í Úkraínu þar sem þjóðir Evrópu keppast við að leggja sitt af mörkum til stríðshrjáðra svæða. Rauði krossinn leggur áherslu á að fólk búi við öryggi, heilbrigði og mannsæmandi skilyrði og hafi tækifæri til að dafna, en sá fjöldi fólks sem undanfarið hefur neyðst til að leggja á flótta og yfirgefa heimkynni sín hefur aldrei verið meiri og er það ein stærsta áskorunin í mannúðarstarfi um allan heim.
Rauði krossinn á Íslandi hefur komið að móttöku og aðlögun flóttafólks með einum eða öðrum hætti frá árinu 1956. Með stoðhlutverki sínu og öflugum mannauði um land allt styður Rauði krossinn á Íslandi við fólk á flótta eftir fremsta megni. Áherslur Rauða krossins í málefnum fólks á flótta lúta að aðstoð í gagnkvæmri aðlögun og sálfélagslegum stuðningi.
Öxlum ábyrgð með því að taka vel á móti flóttafólki
„Við eigum að ganga til verks af festu og ákveðni í þessum mikilvæga málaflokki. Við verðum að tryggja sem best að þessir nýju íbúar Íslands geti aðlagast samfélagi okkar sem fyrst og til þess þurfa þeir stuðning eins og húsaskjól, íslenskukennslu, menntun og ekki síst atvinnu, þannig að þeir verði nýtir þegnar sem auðgi okkar samfélag með sínu framlagi og aukinni fjölbreytni þegar fram líða stundir. Öll þörfnumst við frekari uppbyggingar samfélagsins með nýsköpun, tekjuskatti og útsvarsgreiðslum af atvinnutekjum og flóttafólk á sér enga heitari von en taka þátt í slíku velferðarsamfélagi,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. „Umhyggja okkar verður að vera í verki og með því að styrkja Rauða krossinn á Íslandi sýnum við ábyrgð og tryggð við þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við höfum valið að styðja. Við öxlum samfélagslega ábyrgð m.a. með þessum hætti.“
„Rauði krossinn er afar þakklátur Brimborg fyrir þennan rausnarlega stuðning við það aðkallandi verkefni að taka vel á móti flóttafólki. Það er mjög mikilvægt að fyrirtæki sýni þá ábyrgð að veita góðum málefnum stuðning og leggi þannig sitt af mörkum til að bæta og styrkja íslenskt samfélag,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Þessi styrkur mun koma að miklu gagni og nýtast vel í þau verkefni sem félagið skipuleggur til að styðja flóttafólk á Íslandi.“
Þessi verkefni eru fjölmörg. Leiðsöguvinir eru sjálfboðaliðar sem taka að sér að hitta og kynnast einstaklingum eða fjölskyldum sem nýlega hafa hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi. Í verkefninu Tölum saman hittast flóttafólk og Íslendingar til þess að æfa íslensku saman og Tómstundasjóði flóttafólks er ætlað að styðja börn flóttafólks búsettu hér á landi til að stunda tómstundir sem ekki fæst styrkur fyrir annars staðar. Félagsstarf umsækjenda um alþjóðlega vernd býður svo skjólstæðingum og sjálfboðaliðum vettvang til að skipuleggja viðburði og verkefni með valdeflingu og virka þátttöku að leiðarljósi og síðast en ekki síst hefur fataúthlutun til flóttafólks aukist mikið að undanförnu, en að jafnaði úthlutar félagið um 100 kg af fatnaði til þessa hóps á hverjum degi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.