Almennar fréttir

Átakanlegt myndband frá samstarfsfólki Rauða krossins í Palestínu

14. mars 2019

Myndbandið sýnir hermann hindra för sjúkraflutningamanna sem er í andstöðu við alþjóðleg mannúðarlög sem gilda í vopnuðum átökum 

Rauða krossinum var að berast átakanlegt myndband frá samstarfsfólki okkar hjá Rauða hálfmánanum í Palestínu. Þar má sjá hermann ógna sjúkraflutningamönnum Rauða hálfmánans með riffli, taka af þeim bíllyklana, kasta þeim upp á á húdd sjúkrabílsins og ganga svo í burtu. Sjúkraflutningamennirnir voru á leið til þorpsins Beit Seera, í nágrenni Ramallah, þar sem mótmæli fóru fram föstudaginn 8. mars síðastliðinn. Að hindra för sjúkraflutningamanna er í andstöðu við alþjóðleg mannúðarlög sem gilda í vopnuðum átökum og á hernumdum svæðum og þar með á hernumdum svæðum Palestínu.

Rauði krossinn á Íslandi og Rauði hálfmáninn í Palestínu hafa saman staðið að þjálfun palestínskra sjúkraflutningamanna en landsfélögin tvö eiga það sameiginlegt að sjá um rekstur sjúkrabíla fyrir almenning. „Aðstæður sjúkraflutninga eru mjög ólíkar í þessum tveimur löndum“, segir Guðný Nielsen, verkefnastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Því miður eru atvik sem þessi algeng og það er átakanlegt að heyra sögur kollega okkar sem þurfa að sinna vinnu sinni við stöðuga spennu og mikið óöryggi. Ísraelsk yfirvöld stöðva iðulega sjúkrabílana á eftirlitsstöðvum, jafnvel þótt verið sé að flytja lífshættulega veikt og slasað fólk. Samkvæmt samstarfsfólki okkar á staðnum var för sjúkrabílsins í þessu tilfelli tafin um allt að tíu mínútur, en oft er töfin mun lengri og því miður kemur fyrir að hermenn hreinlega banna sjúkrabílum að halda för sinni áfram. Þá höfum við einnig séð hvernig hermenn hindra sjúkraflutningamenn í að komast að særðu fólki, þeim er ýtt af miklu afli og ráðist að þeim með piparúða“, segir Guðný.

Það er gróft brot á alþjóðlegum mannúðarlögum sem ber að virða í átökum og á hernámssvæðum, þ.m.t. Genfarsamningunum fjórum frá 1949 og venjurétti, að hindra að heilbrigðisstarfsfólk geti unnið starf sitt á vettvangi. Ekki má ráðast á sjúkrabíla eða sjúkrahús eða annað húsnæði þar sem særðum er hjúkrað. Rauður kross eða rauður hálfmáni á hvítum grunni eru tákn fyrir þá vernd sem fólk, tæki og byggingar njóta sem eru til hjálpar fórnarlömbum.

Rauði krossinn á sæti í landsnefnd um mannúðarrétt sem hefur það hlutverk að breiða út þekkingu á alþjóðlegum mannúðarlögum, vera vettvangur umræðna um alþjóðleg mannúðarlög og veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi túlkun og framkvæmd mannúðarréttar.

https://www.youtube.com/watch?v=Pv7fL7OI_9c