Almennar fréttir
Áskoranir og ánægjulegir áfangar hjá nýrri höfuðborgardeild
19. mars 2025
Margra forvitnilegra grasa kennir í fyrstu ársskýrslu nýrrar höfuðborgardeildar Rauða krossins. Risastór verkefni blöstu við í fyrra, m.a. opnun neyslurýmisins Ylju sem hefur verið mjög vel tekið.
„Síðasta ár einkenndist af mikilli vinnu og ýmsum áskorunum,“ segir Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri nýrrar höfuðborgardeildar Rauða krossins. „En við náðum að halda öllum boltum á lofti með ótrúlegri samheldni, góðu starfsfólki og mögnuðum sjálfboðaliðum.“
Ný höfuðborgardeild varð til við sameiningu samnefndrar deildar Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og deildar Hafnarfjarðar, Kópavogs og Garðabæjar. Þannig eru fimm sveitarfélög nú komin undir sama hatt. Sameiningin, sem hafði verið rædd fram og til baka lengi, var einmitt eitt af stóru verkefnunum sem Ósk og hennar fólk tókst á við í fyrra.

Undirbúningur hafði staðið um hríð sem gerði það að verkum að þegar sameiningin varð að veruleika um mitt ár gekk hún vel að sögn Óskar þótt áfram sé unnið að því að fínstilla verkferla. „Svo var það risastórt verkefni að opna neyslurýmið Ylju,“ segir Ósk. Ylju hafi verið tekið mjög vel úti í samfélaginu og þörfin á slíku úrræði verið ljós alveg frá opnun í ágúst í fyrra.
Með sameiningunni og nýjum verkefnum fjölgaði starfsmönnum sem heyrðu undir höfuðborgardeild verulega eða úr níu í tæplega fjörutíu. Að verkefnum þessarar langstærstu deildar Rauða krossins á Íslandi koma nú 624 sjálfboðaliðar.

Fyrsta ársskýrsla hinnar nýju deildar hefur nú litið dagsins ljós. Neyslurýmið Ylja og Frú Ragnheiður, fjölbreytt vinaverkefni, tungumálaþjálfun og sjálfboðaliðastarf fólks á flótta eru meðal þeirra fjölmörgu verkefna höfuðborgardeildar sem fjallað er um í ársskýrslunni. Fram kemur að skaðaminnkunarverkefnin hafi verið mikil og krefjandi á síðasta ári með enduropnun Ylju eftir langa bið í nýju húsnæði við Borgartún. Í Ylju geta notendur fíkniefna neytt þeirra í öruggu rými undir leiðsögn frá heilbrigðismenntuðum aðilum. „Móttökurnar hafa verið fram úr björtustu vonum og oft og ítrekað fullt út úr dyrum,“ skrifar Fanney Birna Jónsdóttir, formaður stjórnar höfuðborgardeildarinnar, í ávarpi sínu í ársskýrslunni. „Frú Ragnheiður hélt uppi fullri þjónustu allt árið, og hvert metið af öðru slegið í komum, förgun búnaðar og öðru og ljóst að þörfin er enn eins brýn og verið hefur.“
Í ársskýrslunni er minnt á að það séu sjálfboðaliðar Rauða krossins sem bera hitann og þungann af starfi deildarinnar. „Kraftur deildarinnar liggur í fjölbreyttum sjálfboðaliðahópi,“ segir á einum stað. Fanney Birna þakkar sjálfboðaliðunum sérstaklega fyrir sín störf í ávarpi formanns, „hvar sem þau starfa innan deildarinnar með Rauða kross hugsjónina í fyrirrúmi; mannúðina, sérstaklega fyrir þeirra störf. Án þeirra væru verkefni deildarinnar ómöguleg“.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Skrifstofa Alþjóðaráðsins í Rafah skemmd
Alþjóðastarf 24. mars 2025„Átök á ný og ofbeldi fylla alla vonleysi,“ segir í nýrri yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum skal hjálparstarfsfólk, heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir njóta sérstakrar verndar.

Nýir og rúmbetri sjúkrabílar á leiðinni
Almennar fréttir 24. mars 2025Rauðinn krossinn mun á næstu mánuðum taka við 25 nýjum sjúkrabílum. Um tvær týpur af bílum verður að ræða.

Breytingar á félagslegum stuðningi
Almennar fréttir 20. mars 2025Vinnumálastofnun og ráðuneyti félagsmála hafa ákveðið að endurnýja ekki samninga við Rauða krossinn sem lúta að félagslegum stuðningi við umsækjendur um vernd annars vegar og ráðgjafaþjónustu vegna fjölskyldusameininga hins vegar.