Almennar fréttir
Annar mesti ebólufaraldur sögunnar veldur neyðarástandi á heimsvísu
19. júlí 2019
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. WHO) lýsti í fyrradag yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna ebólufaraldurs í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. WHO) lýsti í fyrradag yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna ebólufaraldurs í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Ebólusmit var fyrst staðfest í landinu í maí árið 2018. Um var að ræða ebórufaraldur sem átti eftir að geisa óðum yfir landið, þó með hléum. Síðan þá hafa um 1600 manns látist vegna þessarar skæðu veiru og nú er svo komið að um 12 ný tilfelli smita greinast á degi hverjum. Þetta er annar mesti ebólufaraldur sögunnar.
Neyðarástandsyfirlýsing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar nú kemur í kjölfar þess að fyrsta ebólusmitið greindist í borginni Goma, í Lýðstjórnarveldinu Kongó, sem er rétt við landamæri landsins við Rúanda og nálægt landamærunum við Úganda.
Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt neyðaraðgerðir Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) vegna ebólufaraldursins frá því í ágúst á síðasta ári. Með stuðningi utanríkisráðuneytisins hefur félagið þegar varið 45 milljónum til aðgerðanna og til stendur að senda 25 milljónir, hið minnsta, til viðbótar.
Aðstæður í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eru sérlega erfiðar og flóknar en ebólufaraldurinn geisar á afskekktum svæðum og á svæðum þar sem vopnuð átök hafa staðið yfir í 20 ár. Vanþekking og ranghugmyndir um veiruna eru útbreidd meðal íbúa á mörgum svæðum sem leiðir af sér vantraust á hjálparsamtök og yfirlýsingar stjórnvalda. Ráðist hefur verið að heilbrigðis- og hjálparstarfsfólki vegna þessa. Allt gerir þetta neyðaraðgerðirnar mun flóknari og hættulegri.
Magna sendifulltrúi við störf í Úganda
Ebólan barst yfir landamærin til Úganda og þann 11. júní fékkst það staðfest að þrír einstaklingar með smit hefðu komið til landsins. Létust þau smituðu tveimur sólarhringum seinna. Var þetta í fyrsta sinn sem ebólan barst út fyrir landamæri Lýðstjórnarveldisins Kongó síðan faraldurinn braust út árið 2018, en Rauði krossinn hafði þá mánuðum saman markvisst undirbúið sig undir þennan möguleikann.
Heilbrigðisdeild IFRC óskaði þá sérstaklega eftir kröftum Mögnu Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðings við viðbragðsaðgerðir í Úganda. Magna hefur mikla þekkingu og reynslu af neyðaraðgerðum vegna ebólu, en hún sinnti hjálparstarfi í Vestur-Afríku þegar ebóla reið þar yfir á árunum 2014-2016.
Rauði krossinn í Úganda vinnur náið með stjórnvöldum og öðrum hluteigandi aðilum í Úganda, sem hafa verið í viðbragsstöðu síðustu mánuði vegna hættu á að sjúkdómurinn berist yfir landamærin. Starf Mögnu í Úganda hefur fyrst og fremst snúist um að styðja Úganska Rauða krossinn í sínum aðgerðum með því að aðstoða við samhæfingu, skipulag og stjórnun. Þá hefur hún þjálfað fólk í greftrun látinna einstaklinga á öruggan hátt og með reisn. Mest er smithættan þegar fólk er að meðhöndla nýlátna einstaklinga því þá er veirufjöldi ebólunnar hæstur í líkamanum. Örugg greftrun er því einn mikilvægasti hlekkurinn í að sporna við útbreiðslu ebólu.
Mikill undirbúningur og skjót viðbrögð skipta máli
Skjót viðbrögð og yfirgripsmikill undirbúningur heilbrigðisaðila, stjórnvalda og Rauða krossins skipti sköpum þegar ebólutilfellin voru uppgötvuð í Úganda. ,,Vegna ebólufaraldsins í Kongó var snemma farið af stað með forvarnaraðgerðir í formi fræðslu um fyrirbyggjandi aðgerðir sem snerta sóttvarnir almennt. Eins og að mæla hita allra sem koma yfir landamærin, þjálfa heilbrigðisstarfsfólk á spítölum, setja upp sérstaka ebólu-meðferðarspítala og þjálfa fólk til starfa þar. Þetta er allt gert með þeim fyrirætlunum að stoppa útbreiðslu yfir til Úganda og ef smit myndi berast þangað, sem það gerði, að hafa þá kerfi sem virkar, bæði til að flytja veika einstaklinga á ebólu-meðferðarspítala í einangrun og til að rekja og fylgja eftir þeim einstaklingum sem höfðu komist í snertingu við þann veika,‘‘ segir Magnea.
Forvarnarfræðsla í Úganda
Áhyggjur íbúa undirliggjandi og áþreifanlegar
Aðspurð um líðan fólks á svæðinu í kjölfar frétta um ebólusmit í Úganda, segist hún ekki finna fyrir mikilli hræðslu meðal almennings, en að áhyggjur hafi verið undirliggjandi og áþreifanlegar.
,,Mér fannst almennt samhugur í fólki að reyna í sameiningu að sporna við útbreiðslu. Það var áberandi hve vel fólk sinnti sínum samfélagsskyldum með því að taka þátt í fyrirbyggjandi aðgerðum ef mögulega var hægt. Hins vegar var mikið um samsæriskenningar, sögusagnir og fleira af þeim toga sem er mikilvægt að vinna með því það getur aukið líkur á frekari útbreiðslu.‘‘
Enginn smitaður í Úganda í dag en mikil hætta á að fleiri smitaðir komi yfir landamærin
Undirbúningur og aðgerðir skiluðu tilsettum árangri. ,,Í dag er enginn smitaður af ebólu í Úganda og þau þrjú sem smituðust í júní eru allir látnir. 177 einstaklingar höfðu komist í snertingu við þá veiku og þeim var fylgt eftir daglega í 21 dag til að kanna hita og einkenni sem gætu bent til ebólu, þau voru einnig bólusett en bólusetning virðist vera að gefa allt að 99% virkni eins og staðan er í dag. Engin þessara 177 fengu einkenni og til að geta úrskurðað ebólufaraldurinn í Úganda afstaðinn þarf að bíða í 21 dag til viðbótar, sem verður því í kringum 25. júlí, svo lengi sem ekkert breytist. Úganda er því í þokkalegum málum akkúrat á þessu augnabliki, en samt sem áður er mikil hætta á að fleiri smitaðir komi yfir landamærin. Því eru áframhaldandi fyrirbyggjandi aðgerðir mjög mikilvægar og mikil þörf fyrir að þær séu skilvirkar og vel samhæfðar, því ef slakað er á þá mun tilfellum mjög líklega fjölga,‘‘ segir Magnea.
Tilfellið í Goma það sem fyllti mælirinn
Magna segir að staðfesting á ebólusmiti í Goma hafi gert það að verkum að lýst var yfir neyðarástandi á heimsvísu. ,,Þau voru viðbúin þessari þróun á faraldrinum en ástandið er, og hefur verið, þannig að mjög erfitt hefur verið að ná til einstaklinga á ákveðnum svæðum vegna átaka. Þá er vantraust til heilbrigðisstarfsfólks og rangsögur í gangi um að t.d. sé verið að safna líffærum úr fólki, sem hindrar það að fólk leitar sér aðstoðar. Því miður er einnig skortur á fjármagni til að sinna þeim störfum sem þarf að sinna. Þá er gífurleg hætta á að faraldurinn breiðist hratt út þegar hann nær inn í þéttbýli, líkt og Goma þar sem 1.5 milljón manns búa.
Í Goma er alþjóðlegur flugvöllur, rútur koma og fara, og mjög stutt er yfir til Rúanda. Það eru ekki miklar áhyggjur af því að ebólan breiðist út fyrir Austur-Afríku en það er alltaf einhver hætta á því. Líkt og átti sér stað í Vestur Afríku 2014-2016, þá var faraldrinum gefinn lítill gaumur af alþjóðasamfélaginu í langan tíma. Nú er baráttan við faraldurinn búinn að standa yfir í bráðum ár og hann er sérstaklega erfiður viðeignar vegna átaka. Tímabært er, þó fyrr hefði verið, að við öll stöndum saman og styðjum þær aðgerðir með einum eða öðrum hætti til að sporna við frekari útbreiðslu. Fyrsta skrefið í því er að vera upplýstur og meðvitaður.‘‘
Mannvinir Rauða krossins gera sendifulltrúum eins og Mögnu kleift að sinna sínu starfi.
Ert þú Mannvinur ?
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.