Almennar fréttir
Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða
05. desember 2018
Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða er í dag, 5. desember. Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka þeim mikla fjölda sjálfboðaliða sem bjóða fram aðstoð sína og gera starf félagsins mögulegt.
Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða er í dag, 5. desember. Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka þeim mikla fjölda sjálfboðaliða sem bjóða fram aðstoð sína og gera starf félagsins mögulegt. Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnarmaður Rauða krossins, skrifaði að þessu tilefni grein í Fréttablaðið sem birtist í dag til að koma áleiðis þökkum til allra sjálfboðaliða landsins fyrir hönd félagsins.
Sjálfboðaliðar eru á öllum aldri, fólk í námi, starfi og á eftirlaunaaldri. Íbúar í minni bæjarfélögum taka oft þátt í fleiri en einu sjálfboðaliðaverkefni en á höfuðborgarsvæðinu koma flestir að einu verkefni Rauða krossins. Það eru ólíkar ástæður fyrir því að fólk vinnur störf í sjálfboðavinnu, en íslenskar rannsóknir sýna að það er fyrst og fremst að viljinn til að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins, vinna að verðugu málefni og hjálpa þeim sem minna mega sín sem hvetur fólk að bjóða krafta sína í sjálfboðin störf.
Hjá Rauða krossinum starfa rúmlega þrjú þúsund sjálfboðaliðar við um fjögur þúsund stöðugildi í mörgum mismunandi verkefnum. Eins og fram kom í grein Silju Báru eru verkefnin mörg og mismunandi. Sum eru vel þekkt, eins og Frú Ragnheiður og Konukot. Önnur eru minna þekkt en engu minna mikilvæg eins og aðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd, að kenna nýjum íbúum landsins íslensku, kvennadeildir prjóna fyrir ungabörn, margir sem flokka og selja föt sem annars færu í ruslið og sérþjálfaðir heimsóknarvinir sem sporna gegn félagslegri einangrun. Öll taka verkefnin mið af þörfum samfélagsins en þess utan hefur Rauði krossinn lögbundið hlutverk í neyðarvörnum og útvegar sjálfboðaliða til að veita fjöldahjálp og félagslega aðstoð í kjölfar neyðarástands. Án allra þeirra sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum verkefni Rauða krossins á Íslandi væri íslenskt samfélag veikara og fátækara. Rauði krossinn á Íslandi vill hvetja alla landsmenn til að líta í kringum sig í dag og þakka þeim sem þetta gera.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitRauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi
Almennar fréttir 02. desember 2024Stjórn Rauða krossins á Íslandi og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin 9 ár, hafa gert samkomulag um starfslok hennar. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði Kristínar, sem hefur nú þegar látið af störfum. Arna Harðardóttir sem gengt hefur starfi fjármálastjóra mun taka við verkefnum framkvæmdastjóra samhliða sínum störfum þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Staðan verður auglýst innan skamms.
Jólamerkimiðar Rauða krossins 2024 eru komnir út
Almennar fréttir 28. nóvember 2024Jólamerkimiðar Rauða krossins 2024 eru farnir í dreifingu á höfuðborgarsvæðinu. Hægt verður að nálgast þá í verslunum Kjörbúðar, Krambúðar og N1 á landsbyggðinni. Í ár eru jólamerkimiðarnir skreyttir með myndum sem myndlistarkonan Sísí Ingólfsdóttir gerði sérstaklega fyrir miðana.