Almennar fréttir

Aðstoð eftir afplánun og Frú Ragnheiður fengu styrk frá dómsmálaráðuneytinu

01. október 2021

Alþingi ákvað síðasta vetur að veita sérstakt framlag til þess að efla stuðning við aðlögun fanga út í samfélagið að lokinni afplánun í fangelsi.  Rauði krossinn rekur tvö verkefni sem koma beint að stuðningi við þann hóp sem um er rætt.

Dómsmálaráðuneytið óskaði í því skyni eftir tillögum um þá ráðstöfun frá nokkrum félögum og samtökum sem sinna málefnum fanga og aðstoða þá eftir afplánun. Í framhaldi af svörum og með hliðsjón af umfangi verkefnanna hefur dómsmálaráðherra ákveðið að Vernd fái 14 m.kr. í sinn hlut, Rauði krossinn 7 m.kr. og Afstaða 4 m.kr.

Rauði krossinn rekur tvö verkefni sem koma beint að stuðningi við þann hóp sem um er rætt. Aðstoð eftir afplánun er verkefni ætlað fólki sem hefur nýlokið fangelsisvist, er að afplána langan dóm eða hefur einhvern tímann afplánað dóm. Verkefnið er sett upp þannig að einn sjálfboðaliði sinnir einum þátttakanda, sem er að ljúka afplánun, með þarfir og væntingar einstaklingsins í huga. Frú Ragnheiður er starfrækt á þremur stöðum á landinu. Byggir það á hugmyndafræði skaðaminnkunar og miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum skaða þeirra sem nota lögleg og/eða ólögleg vímuefni. Bæði verkefni Rauða Krossins eru að mestu rekin með frjálsum framlögum og umsóknum í opinbera styrki án rekstrarsamnings við ríki eða sveitarfélög.

Rauði krossinn færir kærar þakkir fyrir traustið og styrkinn góða. Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar eða styrkja verkefnin með öðrum hætti geta hringt í s: 786-7133/570-4000 eða senda á netfangið eftirafplanun@redcross.is.

Þeir sem vilja gerast sjálfboðaliðar geta fyllt út formið hér fyrir neðan:

Umsókn um sjálfboðastarf | Rauði Krossinn (raudikrossinn.is)

Hér er hægt að lesa fréttina nánar:

Stjórnarráðið | Vernd, Rauði krossinn og Afstaða fá styrk frá Alþingi vegna fanga (stjornarradid.is)