Almennar fréttir
95 ár í þágu samfélagsins
10. desember 2019
Rauði krossinn á Íslandi er 95 ára í dag.
Í hartnær heila öld höfum við staðið þétt við bakið á þjóðinni og brugðist við þörfum hverju sinni. Við erum fjölmennt félag sjálfboðaliða sem starfar eftir alþjóðlegum hugsjónum með mannúð að leiðarljósi. Við erum Rauði krossinn á Íslandi.
Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var mikil þörf á aukinni heilbrigðisþjónustu og þekkingu fólks á mikilvægi heilbrigðis og hreinlætis. Hið nýstofnaða Rauða kross félag fyllti að hluta til í skarðið með þjálfun hjúkrunarfólks, kaupum og rekstri sjúkrabíla, fræðslu um hreinlæti, kennslu í skyndihjálp, blóðsöfnun og rekstri sjúkraskýla í verstöðvum landsins. Síðar bættist við rekstur sjúkrahótels, hjálpartækjabanka fyrir fólk með fötlun og rekstur sumardvalarheimila fyrir börn.
Heilbrigðisyfirvöld og háskólar hafa síðar tekið við mörgum þessara nauðsynlegu viðfangsefna, en félagið heldur þó enn úti stórum flota sjúkrabíla um allt land og fræðir þjóðina um skyndihjálp.
Börn og ungmenni hafa stutt okkur dyggilega frá upphafi, m.a. með mikilvægri fjáröflun með sölu merkja á öskudag og hafa haldið hlutaveltur fyrir utan verslanir lengur en nokkurt okkar man.
Hlutverk félagsins í almannavörnum breyttist á einni nóttu við upphaf Vestmannaeyjagossins í janúar 1973 þegar fjölmargar fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar undir merkjum félagsins. Sjálfboðaliðar tóku að sér gríðarmikið hjálparstarf næstu árin í Eyjum og um allt land. Síðustu áratugi hafa sjálfboðaliðar brugðist mörg þúsund sinnum við hvers kyns neyð með fjölbreyttum stuðningi við þolendur náttúruhamfara, hópslysa og annarra atburða. Við búum að vel þjálfuðum sjálfboðaliðum um allt land sem eru búnir undir viðbrögð við náttúruhamförum hvenær sem er og hvar sem þær verða.
Rauði krossinn hefur safnað fötum hér á landi í meira en 80 ár. Fyrir miðja síðustu öld hófum við söfnun fyrir fjölskyldur sem bjuggu við fátækt og úthlutum enn fatnaði til þeirra sem á þurfa að halda. Í dag gerum við öllum íbúum landsins kleift að „gefa í Rauða krossinn“ þann fatnað sem ekki er lengur þörf fyrir. Afrakstur söfnunarinnar er ómetanleg fjáröflun fyrir hjálparstarf félagsins hér á landi og erlendis.
Rauði krossinn á Íslandi hefur tekið þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi Rauða kross hreyfingarinnar síðan 1945 þegar við sendum okkar fyrsta sendifulltrúa til að sinna hjálparstarfi í Evrópu á tímum ólýsanlegra hörmunga sem höfðu þá varað í tæp sex ár. Mörg hundruð hjálparstarfsmenn hafa síðan haldið út í heim til að sinna t.d. heilbrigðisþjónustu, vatns- og hreinlætisverkefnum, dreifingu hjálpargagna og sálrænum stuðningi. Áhrifa okkar gætir víða um heim þar sem við höfum komið fólki til aðstoðar á tímum styrjalda, náttúruhamfara og annarra þrenginga, oft á svæðum sem fá önnur samtök hafa aðgengi að eða geta jafnvel ekki starfað á.
Á hverjum degi styðja sjálfboðaliðar Rauða krossins við mikinn fjölda fólks hér á landi. Heimsóknavinir heimsækja fólk sem býr við einsemd, heilbrigðismenntaðir sjálfboðaliðar veita skaðaminnkun og heilbrigðisaðstoð fyrir fólk með vímuefnavanda, aðrir starfa í athvarfi fyrir heimilislausar konur, veita ráðgjöf og stuðning í Hjálparsíma Rauða krossins 1717, veita fjölbreytta þjónustu við flóttafólk, innflytjendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd og eru alltaf til staðar, allri þjóðinni til heilla.
Við í Rauða krossinum horfum bjartsýn til framtíðar. Rauði krossinn gengur um þessar mundir í gegnum breytingar í samræmi við nýjar hnattrænar áskoranir. Landsmenn munu verða varir við aukna áherslu okkar í umhverfis- og loftslagsmálum, aukinn fjölbreytileika í starfi okkar vegna breyttrar samsetningar þjóðarinnar, aukna áherslu á jafnrétti og virkara samtal við ýmsa hópa samfélagsins.
Ég vil nota tækifærið og bjóða ykkur öllum að ganga formlega til liðs við okkur með sjálfboðnu starfi eða mánaðarlegum fjárstuðningi Mannvina Rauða krossins.
Til hamingju með afmælið, kæru Rauða kross félagar.
Til hamingju, landsmenn, með Rauða krossinn.
Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.