Almennar fréttir
7. október – taktu kvöldið frá!
28. september 2022
Næsta föstudagskvöld stendur Rauði krossinn fyrir söfnunarþætti sem verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV. Fjallað verður um verkefni félagsins og þau Valdimar og Jelena Ciric, Emmsjé Gauti, Una Torfadóttir, Hildur Vala og SSSól stíga á svið, auk þess sem VHS hópurinn frumsýnir glænýtt efni sem var gert sérstaklega fyrir þáttinn.
Útsendingin hefst kl. 19:40 og á meðan hún stendur yfir verður áhorfendum boðið að taka þátt í að styðja starf Rauða krossins og gerast Mannvinur. Kynnar í þættinum verða Guðrún Sóley Gestsdóttir og Freyr Eyjólfsson og Aldís Amah Hamilton og Jóhann Alfreð Kristinsson sjá um að halda uppi fjörinu í símaveri Vodafone, þar sem fjölmargir þjóðþekktir einstaklingar taka á móti símtölum frá þeim sem vilja styrkja starf Rauða krossins.
Í þættinum verða nokkur af brýnustu verkefnunum sem Mannvinir styðja, eins og móttaka flóttafólks, neyðarhjálp fyrir þolendur náttúruhamfara og annarra áfalla, skaðaminnkun og þróunarsamvinna, kynnt með svipmyndum og fróðlegum viðtölum. Viðmælendur í þættinum eru einstaklingar sem þekkja af eigin raun hve mikilvægt er að geta treyst á Rauða krossinn þegar á reynir. Þá verður frumsýnt nýtt myndefni frá verkefnum Rauða krossins í Sómalíu og Síerra Leóne sem sýnir vel þær áskoranir sem íbúar í þessum löndum þurfa að takast á við á hverjum einasta degi.
Það vilja allir geta treyst því að geta stólað á Rauða krossinn þegar á reynir, hvort sem það er vegna náttúruhamfara, alvarlegra slysa, andlegra erfiðleika, hungursneyða eða stríðsástands. Almenningur treystir því að Rauði krossinn geti brugðist við á neyðarstundu en til þess þarf Rauði krossinn stuðning almennings.
Heimsfaraldur, átök á meginlandinu, veðurfarsbreytingar og erfiðari lífskilyrði á fjölmörgum svæðum í heiminum sýna okkur að það hefur aldrei verið eins mikilvægt að sýna mannúð og samstöðu.
Rauði krossinn lofar frábæru sjónvarpskvöldi og hvetur landsmenn til að taka þátt í starfinu með því að gerast Mannvinir.
Við biðlum til fyrirtækja og einstaklinga að leggja okkur lið og gerast Mannvinir og fylgjast með á RÚV þann 7. október kl. 19:40.
Vert er að minna á að fyrirtæki og einstaklingar geta fengið skattaafslátt af styrkjum til Rauða krossins.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.