Almennar fréttir
7. október – taktu kvöldið frá!
28. september 2022
Næsta föstudagskvöld stendur Rauði krossinn fyrir söfnunarþætti sem verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV. Fjallað verður um verkefni félagsins og þau Valdimar og Jelena Ciric, Emmsjé Gauti, Una Torfadóttir, Hildur Vala og SSSól stíga á svið, auk þess sem VHS hópurinn frumsýnir glænýtt efni sem var gert sérstaklega fyrir þáttinn.
Útsendingin hefst kl. 19:40 og á meðan hún stendur yfir verður áhorfendum boðið að taka þátt í að styðja starf Rauða krossins og gerast Mannvinur. Kynnar í þættinum verða Guðrún Sóley Gestsdóttir og Freyr Eyjólfsson og Aldís Amah Hamilton og Jóhann Alfreð Kristinsson sjá um að halda uppi fjörinu í símaveri Vodafone, þar sem fjölmargir þjóðþekktir einstaklingar taka á móti símtölum frá þeim sem vilja styrkja starf Rauða krossins.
Í þættinum verða nokkur af brýnustu verkefnunum sem Mannvinir styðja, eins og móttaka flóttafólks, neyðarhjálp fyrir þolendur náttúruhamfara og annarra áfalla, skaðaminnkun og þróunarsamvinna, kynnt með svipmyndum og fróðlegum viðtölum. Viðmælendur í þættinum eru einstaklingar sem þekkja af eigin raun hve mikilvægt er að geta treyst á Rauða krossinn þegar á reynir. Þá verður frumsýnt nýtt myndefni frá verkefnum Rauða krossins í Sómalíu og Síerra Leóne sem sýnir vel þær áskoranir sem íbúar í þessum löndum þurfa að takast á við á hverjum einasta degi.
Það vilja allir geta treyst því að geta stólað á Rauða krossinn þegar á reynir, hvort sem það er vegna náttúruhamfara, alvarlegra slysa, andlegra erfiðleika, hungursneyða eða stríðsástands. Almenningur treystir því að Rauði krossinn geti brugðist við á neyðarstundu en til þess þarf Rauði krossinn stuðning almennings.
Heimsfaraldur, átök á meginlandinu, veðurfarsbreytingar og erfiðari lífskilyrði á fjölmörgum svæðum í heiminum sýna okkur að það hefur aldrei verið eins mikilvægt að sýna mannúð og samstöðu.
Rauði krossinn lofar frábæru sjónvarpskvöldi og hvetur landsmenn til að taka þátt í starfinu með því að gerast Mannvinir.
Við biðlum til fyrirtækja og einstaklinga að leggja okkur lið og gerast Mannvinir og fylgjast með á RÚV þann 7. október kl. 19:40.
Vert er að minna á að fyrirtæki og einstaklingar geta fengið skattaafslátt af styrkjum til Rauða krossins.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.