Almennar fréttir
50 ára afmæli Rauða hálfmánans í Palestínu aflýst vegna átaka
21. desember 2018
Þann 13. desember sl. fagnaði Rauði hálfmáninn í Palestínu 50 ára afmæli sínu í skugga hernáms og átaka á herteknu svæðunum í Palestínu. Fulltrúar Rauða krossins á Íslandi voru í Palestínu í tilefni afmælisins ásamt fleiri fulltrúum úr alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans.
Þann 13. desember sl. fagnaði Rauði hálfmáninn í Palestínu 50 ára afmæli sínu í skugga hernáms og átaka á herteknu svæðunum í Palestínu. Fulltrúar Rauða krossins á Íslandi, Sveinn Kristinsson, formaður og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri voru í stödd í borginni Ramallah í Palestínu í tilefni afmælisins ásamt fleiri fulltrúum úr alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans.
Sveinn Kristinsson hélt ræðu og þakkaði Rauða hálfmánanum í Palestínu fyrir gott samstarf og trausta vináttu en Rauði krossinn á Íslandi hefur til margra ára stutt systurfélag sitt í Palestínu. Í ræðu sinni sagði Sveinn m.a.:
„Landsfélögin tvö, hið íslenska og Palestínska, leggja bæði áherslu á sálrænan stuðning og hafa þau saman unnið að uppbyggingu áfallateyma sem veita íbúum Palestínu stuðning þegar átök verða. Rauði hálfmáninn í Palestínu hefur lengi notið stuðnings Rauða krossins á Íslandi og mun sá stuðningur halda áfram um ókomin ár.“
Á meðan á hátíðahöldum stóð skaut Ísraelsher palestínskt ungmenni til bana við mótmæli í nágrenni höfuðstöðva Rauða hálfmánans. Í kjölfarið mögnuðust mótmæli sem hafa verið áberandi þar sem Palestínumenn mótmæla hernámi Ísraels. Sömuleiðis óx spenna á svæðinu og fljótlega hafði mikill fjöldi ísralelskra hermanna tekið stjórn á miðborg Ramallah. Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins segir að ástandið hafi verið mjög skrýtið og ógnvænlegt.
„Við sem þarna vorum gestkomandi sáum frá fyrstu hendi hversu miklu afli ísraelski herinn getur beitt og á mjög skömmum tíma. Áður en við vissum af var mikið herlið mætt allt í kringum skrifstofur Rauða hálfmánans, læti, brennandi dekk, skothvellir og táragas var allt um kring og í raun alla nóttina. Við vorum því svefnlaus þá nóttina en það er nokkuð sem íbúar Palestínu þekkja vel, því miður. Þyrlur og drónar svifu yfir höfðum okkar, við vissum ekki hvort eða hvenær það yrði sprenging. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um hversu neikvæð áhrif þetta hefur á fólk sem býr við hernám og þessa stöðugu ógn og spennu, sér í lagi börn. Það er einmitt ein aðalástæða þess að við höfum lagt svo mikla áherslu á sálræna aðstoð við börn og ungmenni í Palestínu, að valdefla þau og stuðla að friðsamlegri lausn á milli deiluaðila.“
Við höfuðstöðvar Rauða hálfmánans eru flóttamannabúðir sem breyttust í hálfgert átakasvæði og var móttökunni, þar sem hátíðarhöldin áttu að fara fram, breytt í fjöldahjálparmiðstöð og leitaði fjöldi palestínskra kvenna og barna þar skjóls og fékk nauðsynlega aðstoð. Eins og glöggt kom fram þetta kvöld starfa starfsmenn Rauða hálfmánans við mjög krefjandi og oft lífshættulegar aðstæður í Palestínu og verður framlag þeirra seint ofmetið.
Ísraelsmenn hafa verið gagnrýndir fyrir að virða ekki alþjóðleg mannúðarlög sem eru lög sem gilda í vopnuðum átökum og þegar um hernám er að ræða. Alþjóðleg mannúðarlög banna hóprefsingar. Dæmi um slíkt er þegar heimili saklausra og óbreyttra borgara eru lögð í rúst fyrir það eitt að heimilisfólk tengist t.d. fjölskylduböndum einstaklingi sem er grunaður um glæp gegn ísraelska hernum eða ólögmætum landtökubyggðum á hernumdu svæðunum.
„Morguninn eftir mestu lætin urðum við vitni af því þegar ísraelski herinn jafnaði við jörðu heimili fjölskyldu palestínsks ungmennis sem er sakaður um að hafa fyrr á árinu orðið valdur að dauða ísraelsks hermanns. Þetta var mjög sláandi atburðarrás og ég ætlaði varna að trúa því þegar það heyrðust háar drunur og var þá húsið rústir einar. Þetta var mjög óhugnanleg sjón að sjá. “
Fulltrúar Rauða krossins á Íslandi og fleiri landsfélaga komust eftir krókaleiðum á flugvöll morguninn eftir en búið var að loka öllum vegatálmum í kringum borgina og koma upp nýjum vegatálmum. Ofangreind atburðarás er hluti af víðtæku ofbeldi og spennu á hernumdu svæðunum þar sem mikill fjöldi Palestínumanna hefur látið lífið, særst eða verið handteknir auk þess sem Ísraelskir hermenn og ríkisborgarar hafa einnig særst eða jafnvel látið lífið. Frá 9. desember hafa þrír Ísraelar og fimm Palestínumenn látið lífið í árásum, átökum og við handtöku. Yfir 400 Palestínumenn eru særðir og í að minnsta tólf Ísraelar.
Hátíðarhöldin sem stofnað var til við þetta gleðilega tilefni snerust því upp í andhverfu sína og urðu fremur mikilvæg áminning um hversu mikilvægt starf óháðra hjálparsamtaka er við aðstæður sem þessar. Framlag Rauða hálfmánans skiptir þar gríðarlegu máli og mun Rauði krossinn á Íslandi, ásamt fjölmörgum öðrum landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans, halda áfram að styðja við bakið á palestínska Rauða hálfmánanum og Alþjóðaráði Rauða krossins í Palestínu, bæði við lengri tíma þróunarverkefni og með því að veita lífsbjargandi aðstoð vegna átaka.
Fréttir af starfinu
FréttayfirlitJólabasar Kvennadeildar 23. nóvember
Almennar fréttir 18. nóvember 2024Jólabasar Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins á Íslandi verður haldinn laugardaginn 23. nóvember kl. 13:00 - 16:00 í Safnaðarheimili Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56, 105 Reykjavík.
Seldu perl til styrktar Rauða krossinum
Almennar fréttir 01. nóvember 2024Fjórar vinkonur gengu í hús í Síðuhverfi á Akureyri og seldu perl til styrktar Rauða krossinum.
Rauði krossinn og íslensk stjórnvöld undirrita heit á sviði mannúðarmála
Almennar fréttir 31. október 2024Íslensk stjórnvöld og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað fimm heit á sviði mannúðarréttar og mannúðarmála.