Almennar fréttir
112-dagurinn haldinn\r\num allt land í dag
11. febrúar 2019
112-dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint að öryggismálum heimilisins. Aðstandendur dagsins fræða almenning um hvernig má draga úr hættu á slysum og öðrum áföllum á heimilum og hvernig bregðast á við slíkum atvikum.
Öryggismál heimilisins eru þema 112-dagsins. Áhersla á forvarnir og rétt viðbrögð. Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur. Verðlaun veitt í Eldvarnagetrauninni.
112-dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint að öryggismálum heimilisins. Aðstandendur dagsins fræða almenning um hvernig má draga úr hættu á slysum og öðrum áföllum á heimilum og hvernig bregðast á við slíkum atvikum. Þetta er gert meðal annars á samfélagsmiðlum og í 112-blaðinu sem fylgir Fréttablaðinu í dag og má nálgast hér.
Stór hluti símtala í neyðarnúmerið 112 á rætur að rekja til slysa og annarra áfalla á heimilum fólks. Fólk verður alvarlega veikt heima eða slasast, börn komast í lyf og önnur hættuleg efni, eldur kemur upp á heimilinu, þjófar láta greipar sópa, svo nokkur dæmi séu nefnd. Í 112-blaðinu sem fylgir Fréttablaðinu í dag er bent á fjölmargt sem unnt er að gera til að fyrirbyggja atvik af þessu tagi og bregðast við þeim, til dæmis með því að læra skyndihjálp, efla fallvarnir og auka eldvarnir og varnir gegn innbrotum.
Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra
Í tilefni dagsins efna Neyðarlínan og samstarfsaðilar 112-dagsins til móttöku í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð kl. 16 í dag með svohljóðandi dagskrá:
· Ávarp: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
· Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2018 afhent
· Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur
Samstarfsaðilar 112-dagsins
112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.
112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að aðeins þarf að kunna þetta einfalda númer til þess að fá aðstoð í neyð. Markmiðið með 112-deginum er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu
Almennar fréttir 20. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.
Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli
Almennar fréttir 10. desember 2024Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land.
Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co
Almennar fréttir 03. desember 2024Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.