Almennar fréttir

100 ára afmælishátíð Rauða krossins í Hörpu

20. desember 2024

Rauði krossinn á Íslandi náði þeim áfanga á dögunum að ná 100 ára aldri. Tímamótunum hefur verið fagnað með ýmsum hætti, svo sem greinaskrifum, viðtölum, útgáfu viðamikils rits um sögu félagsins og nú síðast hátíðarfundar í Hörpu þann 10. desember síðastliðinn.

Um 400 gestir sóttu fundinn, sem haldinn var í salnum Norðurljósum. Frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ávörpuðu fundinn. Bæði þökkuðu þau félaginu fyrir margvíslegt framlag til heilbrigðis- og velferðarþjónustu landsins og almannavarna.

Birgitte Bischoff Ebbesen, yfirmaður Evrópuskrifstofu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans hélt tölu um framlag Rauða krossins á Íslandi til alþjóðastarfs hreyfingarinnar. Þar tiltók hún sérstaklega sendifulltrúa og fjárstuðning félagsins við björgunarskip sem Rauði krossinn heldur úti á Miðjarðarhafi fyrir flóttafólk. Þrátt fyrir smæð hefur Rauði krossinn á Íslandi verið í forystu við að tryggja fjárhagslegan grunn og starfsfólk fyrir þessa þjónustu, með mikilvægum stuðningi utanríkisráðuneytisins.

Silja Bára R. Ómarsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi hélt sömuleiðis ávarp. Í erindi sínu vék hún að ýmsum nýjum áskorunum sem blasa við með aukinni hörku í heimspólitíkinni. Rauði krossinn þarf að vera meðvitaður um breytta stöðu og að félagið hefur hlutverki og skyldum að gegna.

Þá voru haldin nokkur stutt erindi um grundvallarhugsjónir Rauða krossins og hvernig þær fléttast inn í allt starf félagsins á Íslandi og um heim allan.

Hljómsveitin Ylja, skemmtikrafturinn Ari Eldjárn, Skólakór Kársness og félagar í Tónlistarvinum Rauða krossins veittu fundinum hátíðlegt, fallegt og skemmtilegt yfirbragð.

Öllum gestum og því fólki sem lagði hönd á plóg er þakkað fyrir daginn, sem var félaginu til mikils sóma.

Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra
Birgitte Bischoff Ebbesen, yfirmaður Evrópuskrifstofu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans
Tónlistarvinir spiluðu lög á meðan fólk gekk inn í salinn
Góðir gestir í móttökunni
Góðir gestir í móttökunni
Hugi Garðarson spilaði ljúfa tóna
Veitingar í kaffihléi
Hljómsveitin Ylja spilaði lög
Ari Eldjárn lokaði hátíðinni með uppistandi

Fréttir af starfinu

Fréttayfirlit

Mannúð í heila öld - Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli

Almennar fréttir 10. desember 2024

Í dag, 10. desember, fagnar Rauði krossinn á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Árið 1924 var félagið stofnað vegna aukinnar vitundar um þörfina fyrir mannúðarstarfsemi á Íslandi en skortur var á kerfisbundinni neyðaraðstoð og félagslegum stuðningi fyrir þá sem lentu í áföllum. Í dag er Rauði krossinn orðinn að ómissandi hluta af samfélaginu, með sjálfboðaliðum og starfsmönnum um allt land. 

Rauði krossinn 100 ára - söfnun í samstarfi við Finnsson & Co

Almennar fréttir 03. desember 2024

Rauði krossinn á Íslandi fagnar 100 ára afmæli sínu þann 10. desember 2024. Af því tilefni höfum við sett af stað landssöfnun þar sem við óskum eftir stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka um land allt við innlend verkefni RKÍ. Við njótum liðsinnis fyrirtækisins Finnsson & Co við söfnunina, en það hefur áður sinnt sambærilegum útgáfu- og fjáröflunarverkefnum.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi

Almennar fréttir 02. desember 2024

Stjórn Rauða krossins á Íslandi og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin 9 ár, hafa gert samkomulag um starfslok hennar. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði Kristínar, sem hefur nú þegar látið af störfum. Arna Harðardóttir sem gengt hefur starfi fjármálastjóra mun taka við verkefnum framkvæmdastjóra samhliða sínum störfum þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Staðan verður auglýst innan skamms.