Sjálfboðaliðar gera starfið okkar mögulegt
Sjálfboðastörf hjá Rauða krossinum
Sjálfboðaliðar Rauða krossins gera hreyfingunni kleift að vera til staðar þar sem þörfin er mest og bregðast skjótt við á neyðarstundu. Rauði krossinn á Íslandi er hluti af alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans þar sem starfa yfir 14 milljónir sjálfboðaliða. Á Íslandi starfa um 2300 sjálfboðaliðar um allt land. Verkefnin eru fjölbreytt og flest geta fundið verkefni við hæfi og nýtt hæfni sína og þekking samfélaginu til góða.
Algengar spurningar um sjálfboðastörf
Þegar sjálfboðaliðar eru spurðir af hverju þau vinna sjálfboðastörf er svarið iðulega löngunin að vera til staðar fyrir þau sem þurfa og gefa til baka til samfélagsins. En mörg nefna líka að í sjálfboðastarfinu öðlist þau nýja þekkingu og hæfni, fái tækifæri til að nýta sína sérþekkingu og/eða reynslu, kynnist nýju fólki, og efli tengslanetið sitt. Svo hefur verið sýnt fram á að sjálfboðið starf stuðlar að heilbrigði og vellíðan þeirra sem þau vinna, auki sjálfstraust og geti aukið atvinnuhæfni, sér í lagi ungs fólks.
Þegar hugmyndin að Rauða krossinum varð fyrst til í kringum miklar styrjaldir og neyð þótti vöntun á samtökum sem gátu komið særðum hermönnum til aðstoðar óháð því hvoru megin víglínanna þeir börðust. Grunnhugmyndin var að veita mannúðaraðstoð án þess að gera greinarmun á fólki t.d. eftir uppruna, tungumáli, kyni eða trúarbrögðum og byggja á sjálfboðnu starfi.
Í dag er sjálfboðið starf enn ein af grundvallarhugsjónum Rauða krossins. Hreyfingin er borin upp af sjálfboðnu starfi og lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon. Á Íslandi starfa um 2300 sjálfboðaliðar um allt land og eiga það sameiginlegt að vilja nýta krafta sína samfélaginu til góða. Þannig er félaginu gert kleift að vinna að markmiðum sínum og bregðast skjótt við með sjálfboðaliða í framlínunni sem vinna af hugsjón og mannúð.
Einn af grunnþáttum í starfsemi okkar er fjölbreyttur hópur sjálfboðaliða sem endurspeglar samfélagsgerðina og veitir okkur kraft og bolmagn til að starfa að þeim fjölmörgu verkefnum sem við sinnum. Við leggjum áherslu á samfélagslega þátttöku ólíkra aðila í starfi félagsins og þjálfum og fræðum þannig að sjálfboðaliðar hafi verkfærin til að takast á við verkefnin sín.
Þannig ættu flest að geta gerst sjálfboðaliðar og fundið verkefni í samræmi við áhuga og hæfni. Almennt er 18 ára aldursviðmið í verkefnum en í sumum verkefnum er gerð krafa um að hærri aldri hafi verið náð og/eða ákveðna hæfni eða þekkingu. Alltaf er gerð krafa um að sjálfboðaliðar séu tilbúin til að starfa samkvæmt stefnu Rauða krossins, siðareglum og grundvallarhugsjónum.
Í verkefnum með börnum og ungmennum er óheimilt að ráða starfsmenn eða sjálfboðaliða sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum.
Verkefni Rauða krossins eru fjölbreytt og miðast við þörf í samfélaginu og stefnu Rauða krossins hverju sinni. Verkefni sjálfboðaliða eru sömuleiðis margskonar og við leggjum áherslu á að sjálfboðaliðar fái verkefni við hæfi og hljóti þjálfun og fræðslu svo þeir geti unnið störf sín á árangursríkan og öruggan máta.
Sum sjálfboðastörf krefjast sérþekkingar eða sérstakrar reynslu. Sem dæmi þá sinna hjúkrunarfræðingar og læknar heilbrigðisþjónustu í Frú Ragnheiði í sjálfboðastarfi. Í 1717 Hjálparsímanum er lögð áhersla á mikla hæfni í samskiptum en sjálfboðaliðar fá þjálfun og leiðbeiningar til að geta tekið á móti margvíslegum og oft krefjandi erindum. Í öðrum verkefnum þurfa sjálfboðaliðar ekki að búa yfir ákveðinni sérþekkingu eða hæfni heldur fá þjálfun og fræðslu sem þeir kunna að þurfa til að geta tekist á við verkefnið sitt.
Það er ólíkt milli verkefna hversu mikinn tíma sjálfboðaliðar eru beðnir um að leggja fram og í hversu langan tíma þeir þurfa að skuldbinda sig.
Í sumum verkefnum verja sjálfboðaliðar einni klukkustund vikulega og í öðrum verkefnum t.d. 3 klukkustundum tvisvar sinnum í mánuði. Stundum eru sjálfboðaliðar beðnir um að skuldbinda sig til 6 eða 12 mánaða og í öðrum tilfellum er beðið um mun skemmri skuldbindingu.
Fyrsta skrefið er að kynna sér verkefni sjálfboðaliða og kanna hvar áhuginn leynist helst.
Lögð er inn rafræn umsókn um sjálfboðastörf og haft verður samband innan 14 daga. Umsóknin er metin út frá mögulegum hæfni- og/eða aldursviðmiðum og hvort vanti sjálfboðaliða í verkefnið.
Ef þú velur verkefni sem hentar þér ekki eða þar sem vantar ekki sjálfboðaliða þá hjálpum við þér að kanna aðra möguleika.
Ef verkefnið er rétt fyrir þig bjóðum við þér í viðtal þar sem þú færð helstu upplýsingar um markmið, fyrirkomulag og fræðslu sem þú þarf að ljúka til að geta hafið störf.
Þegar þú hefur hafið störf stendur þér til boða að sækja þér aukna fræðslu sem styrkir þig í starfinu.
Landsfélög Rauða krossins leggja áherslu á öflugt sjálfboðastarf í nærsamfélaginu, að þjálfa og fræða sjálfboðaliða svo þau séu í stakk búin að takast á við krísur og hamfarir í heimabyggð. Rauði krossinn á Íslandi hefur sömu áherslu en tekur einnig reglulega þátt á alþjóðlegu samstarfi um sjálfboðaliðaskipti.
Rauði krossinn á Íslandi, í samstarfi við Rannís og Alþjóðleg ungmennaskipti, hefur um langt skeið tekið á móti ungum sjálfboðaliðum frá Evrópu. Móttaka sjálfboðaliðann er í gegn um verkefnið European Solidarity Corps (ESC), sem er hluti af Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlun Evrópusambandsins.
Markmið ESC verkefnisins er að gefa ungu fólki á aldrinum 18-30 ára tækifæri á að stunda sjálfboðastörf utan síns heimalands og m.a. auka þekkingu sínu, læra ný tungumál, kynnast nýrri menningu í gegn um óformlegt nám og auka samstöðu og skilning milli samfélaga. Ungt fólk sem hefur áhuga á að koma til Íslands og vinna sjálfboðastörf hjá Rauða krossinum í gegn um ESC verkefnið getur kynnt sér möguleikana hjá Alþjóðlegum ungmennaskiptum. Ungt fólk sem búsett er á Íslandi og hefur áhuga á sjálfboðaliðastarfi erlendis (m.a. hjá öðrum landsfélögum Rauða krossins) getur einnig haft samband við Alþjóðleg ungmenna kannað möguleikana.
Skipulögð sjálfboðastörf geta verið hluti af námi á unglinga-, framhaldsskóla- og háskólastigi. Rauði krossinn á Íslandi tekur reglulega á móti nemendum í sjálfboðastörf í tengslum við nám þeirra. Allar fyrirspurnir vegna sjálfboðastarfa í tengslum við nám, Erasmus verkefni og starfsnám má senda á central@redcross.is
Kynntu þér verkefni sjálfboðaliða
Aðstoð eftir afplánun
Aðstoð eftir afplánun er verkefni ætlað fólki sem hefur nýlokið fangelsisvist. Það er mikilvægt að fá stuðning þegar afplánun lýkur en mörgum getur reynst erfitt að hefja nýtt líf.
Flóttafólk og innflytjendur
Rauði krossinn á Íslandi hefur starfað með flóttafólki frá árinu 1956. Síðan þá hefur félagið gegnt lykilhlutverki í félagslegum stuðningi og hagsmunagæslu flóttafólks.
Fataverslanir
Hér sérðu opnunartíma verslana Rauða krossins um allt land. Með því að gefa textíl til Rauða krossins styður almenningur við mikilvæg mannúðarverkefni og stuðlar að umhverfisvernd í formi endurnýtingar.
Hjálparsíminn 1717 og netspjallið
Ekkert vandamál er of lítið eða stórt fyrir netspjall og hjálparsímann 1717. Þjónustan er alltaf opin og ókeypis, trúnaði og nafnleynd er heitið.
Neyðarvarnir
Fjöldahjálparstöðvar eru starfræktar á neyðartímum til að bjóða þolendum náttúruhamfara og annarra alvarlegra atburða öruggt skjól. Þar er þeim séð fyrir helstu grunnþörfum.
Skaðaminnkun
Rauði krossinn starfrækir verkefni sem byggja á hugmyndafræði skaðaminnkunar í vinnu með einstaklingum sem eiga við vímuefnavanda að stríða
Umsækjendur um alþjóðlega vernd
Rauði krossinn sinnir félagslegum stuðningi við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Vinaverkefni
Vinaverkefnin miða að því að draga úr félagslegri einangrun og auka við félagslega þátttöku fólks. Hlutverk sjálfboðaliða er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju.
Hvar er mesta þörfin fyrir sjálfboðaliða núna?
Flóttafólk og innflytjendur
Rauði krossinn á Íslandi hefur starfað með flóttafólki frá árinu 1956. Síðan þá hefur félagið gegnt lykilhlutverki í félagslegum stuðningi og hagsmunagæslu flóttafólks.
Aðstoð eftir afplánun
Aðstoð eftir afplánun er verkefni ætlað fólki sem hefur nýlokið fangelsisvist. Það er mikilvægt að fá stuðning þegar afplánun lýkur en mörgum getur reynst erfitt að hefja nýtt líf.
Fataverslanir
Hér sérðu opnunartíma verslana Rauða krossins um allt land. Með því að gefa textíl til Rauða krossins styður almenningur við mikilvæg mannúðarverkefni og stuðlar að umhverfisvernd í formi endurnýtingar.
Kynningarmyndband um sjálfboðaliðastörf
Hér má sjá hvað felst í sjálfboðastarfi og hvað sjálfboðaliðar og starfsfólk hafa að segja