Gifts of inheritance to the Icelandic Red Cross
If you are interested in donating a part or all of your belongings to the Red Cross you can find useful practical information here. You can also contact central@redcross.is for more information
Algengar spurningar og svör
Það fer allt eftir óskum arfleiðanda. Hægt er að leggja fram ósk um að arfur fari í ákveðin verkefni, verkefni tengd ákveðnum málaflokkum eða til starfs Rauða krossins.
Erfðaskrá segir til um ráðstöfun eigna einstaklings við andlát hans. Hægt er að gera erfðaskrá hvenær sem er, eftir að einstaklingur hefur náð 18 ára aldri, allt fram að andláti.
Ekki er nauðsynlegt að láta erfingja vita af tilvist erfðaskrár og henni má breyta eða afturkalla hvenær sem er fram að andláti.
Erfðaskrá er jafngild hvort sem hún er undirrituð og skráð hjá sýslumanni eða ekki. Ákveðið öryggi felst þó í því að skrá hana hjá sýslumanni en þá er öruggt að rétt sé staðið að gerð hennar og hún sé varðveitt á öruggum stað.
Við gerð erfðaskráa þarf að gæta sérstakra reglna sem varða erfðaskrárformið svo að hún sé gild skv. lögum. Mælt er með að fólk ráðfæri sig við sérfræðinga við gerð hennar.
Einstaklingum, sambúðarfólki eða hjónum er heimilt er að gera sameiginlega erfðaskrá í samræmi við erfðalög.
Fjármunir og eignarréttindi hins látna erfast.
Erfingi er sú manneskja sem fær arf eftir hinn látna. Hægt er að erfa vegna ákvæða í lögum eða samkvæmt erfðaskrá.
Maki og börn eru skylduerfingjar. Ef arfleifandi á skylduerfingja á lífi má hann að hámarki ráðstafa 1/3 eigna sinna með erfðaskrá, en að minnsta kosti 2/3 verða að ganga til skylduerfingja.
Arfleifandi sem á enga skylduerfingja á lífi getur ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá.
Ef engin erfðaskrá hefur verið gerð, eiga lögerfingjar rétt á arfi skv. lögum. Lögerfingjar eru:
-
Börn hins látna og aðrir niðjar.
-
Maki hins látna.
-
Foreldrar hins látna og systkini.
-
Föður- og móðurforeldrar hins látna og börn þeirra.
Ef engir lögerfingjar eru til staðar, rennur arfur sem ekki hefur verið ráðstafað í ríkissjóð.
Erfðafjárskattur er skattur sem leggst á arfshlut. Enginn erfðafjárskattur er hins vegar greiddur af arfi sem arfleiddur er til félaga eins og Rauða krosssins.
Samkvæmt erfðalögum má greiða skylduerfingjum, lögerfingjum og öðrum erfingjum fyrirfram út arfshluta þeirra að hluta til eða öllu leyti. Við slíka fyrirframgreiðslu arf ber eringja eða erfingjum að ganga frá og undirrita erfðafjárskýrslu og afhenda sýslumanni til yfirferðar og ákvörðunar á erfðafjárskatti. Skattur af fyrirframgreiddum arfi er 10% af öllum arfshlutanum.
Meginreglan er sú að óheimilt er að gefa erfingjum fyrirmæli um meðferð á arfi. Þetta á hins vegar ekki um arf sem er ekki skylduarfur. Auk þess er heimilt að kvaðabinda skylduarf ef verulegar líkur eru á því að erfingi muni fara ráðleysislega með hlut sinn, en fyrirmæli um að kvaðabinda arf þarf alltaf að setja í erfðaskrá. Slík ákvæði eru háð samþykki sýslumannsembættisins á Norðurlandi Eystra, þegar um skylduerfingja er að ræða. Að öðru leyti fer það eftir vilja erfingja að taka tillit til óska arfleifanda.
Þórunn Egilson, alltaf kölluð Tótó af fjölskyldu sinni, var fædd í Barcelona á Spáni árið 1926 en lést í Reykjavík árið 2014. Þórunn var ævintýrakona, ferðaðist um rústir Evrópu eftir seinni heimstyrjöldina á mótorhjóli, lærði tískuteiknun í Los Angeles á fimmta áratugnum með tilheyrandi boðum í Hollywood en hún bjó hjá Nínu Sæmundsson listakonu. Þá lærði Þórunn gluggaútstillingar í Vínarborg og stofnaði verslunina Dimmalimm í Reykjavík. Þórunn var fær í höndunum og sannkölluð listakona sem gat töfrað fram fallega hluti á frumlegan hátt.
Þórunn og maður hennar Stefán Ólafsson voru barnlaus. Hún ákvað að eftir sinn dag skyldi hún arfleiða Rauða krossinn að hluta eigna sinna. Framlag hennar hefur nýst til þess að koma þeim verst stöddu til hjálpar sem og í Vertu næs verkefni Rauða krossins, en það var sett á laggirnar til þess að hvetja fólk til að koma fram hvert við annað af virðingu óháð uppruna, trúarbrögðum eða litarhætti og draga úr fordómum í íslensku samfélagi.
Erfðagjöf til Vestmannaeyjadeildar Rauða krossins
Það var í upphafi ársins 2016 að stjórn Rauða krossins í Vestmannaeyjum fékk þær fréttir frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum að deildin hefði erft allar eigur Björns Jónssonar, Túngötu 18 í Vestmannaeyjum. Um var að ræða íbúð, bifreið, fjármuni og ýmsa lausamuni. Björn og konan hans Ásta Hildur Sigurðardóttir frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum höfðu ákveðið að láta allar sínur eigur renna til Rauða krossins í Vestmannaeyjum.
Ásta Hildur lést í nóvember 2014 en Björn í febrúar 2016. Hjónin áttu engin börn og vildu að allar eigur þeirra rynnu til góðra málefna. Björn var sjómaður alla sína tíð en Ásta Hildur vann í fiskvinnslu og einnig var hún annáluð hannyrðakona.
Rauða kross fólk í Vestmannaeyjum er afar þakklátt þeim kæru hjónum að leggja allt sitt í mikilvæg verkefni Rauða krossins og blessar minningu þessara yndislegu hjóna.
Rauði krossinn í Vestmannaeyjum hefur þegar látið fé renna í stórt verkefni Rauða krossins á Íslandi í Sómalíu og eins veitt styrki til þeirra sem minna mega sín. Rauði krossinn í Vestmannaeyjum hefur talið það vera í anda gjafarinnar og mun hún nýtast áfram til þeirra mikilvægu verkefna sem Rauði krossinn vinnur að.