Verklags- og úthlutunarreglur
Vegna styrktarsjóðsins Þróttur Grindvíkinga 2024-2026
Tilgangur reglnanna er að setja ramma um ráðstöfun þess fjármagns sem Rauða krossinum hefur verið falið að ráðstafa skv. styrktarsamningi við Rio Tinto 1. september 2024 til 31. ágúst 2026.
Úthlutunarnefnd
Rauði krossinn starfrækir úthlutunarnefnd. Nefndin starfar í samræmi við þessar reglur en hefur heimild til að víkja frá þeim ef fyrir því liggja ríkar ástæður og skulu slík frávik vera rökstudd í fundargerð.
Þau sem sitja í úthlutunarnefnd skulu gæta að hæfisreglum varðandi ákvarðanatöku og víkja sæti ef fyrirliggjandi ástæður eru til þess fallnar að draga úr tiltrú á óhlutdrægni við ákvarðanatöku.
Við úthlutun styrkja skal taka mið af eftirfarandi:
- Verkefnið miði að því að efla seiglu Grindvíkinga
- Að eingöngu lögpersónur (fyrirtæki, lögaðilar og félagasamtök) geti sótt um styrk fyrir hópastarf og samfélagsleg verkefni.
- Viðkomandi verkefni sé ekki hluti af lögbundnu starfi ríkis og sveitarfélags.
- Viðkomandi verkefni stuðli að betri andlegri líðan eða efli félagsleg tengsl.
- Verkefnið uppfyllir grunngildi Rauða krossins hvað varðar mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði.
Umsóknarferli og framkvæmd
Umsóknartímabil er frá 25. október 2024 til 1. júní 2026 en framkvæmd verkefnis þarf að vera lokið fyrir 31. ágúst 2026. Tekið er á móti umsóknum í gegnum vefhlekk.
Úthlutunarnefnd fer yfir óafgreiddar umsóknir á fundum sínum annan hvern föstudag meðan á gildistíma reglnanna stendur. Ritari úthlutunarnefndar svarar umsækjendum skriflega í tölvupósti.
Með umsókn skal fylgja lýsing á:
- a) Verkefninu
- b) Tilgangi þess
- c) Hvernig verkefnið styðji við markmið sjóðsins
- d) Áætlun um fjölda viðburða, fjölda þátttakenda og hvernig árangur verði mældur.
- e) Upphæð sem sótt er um
Umsækjandi skal leggja fram ánægjukönnun fyrir þátttakendur.
Ef að umsækjandi framkvæmir sínar eigin ánægjukannanir þá óskar Rauði krossinn eftir afriti af þeim svo fremi sem þær séu nafnlausar og persónuverndarstefna leyfi það.
Umsækjandi skal skila greinargerð innan tveggja mánaða frá lokum verkefnis þar sem ofangreint kemur fram. Tölulegar upplýsingar skulu vera hluti af greinargerðinni í samræmi við ofangreindan d-lið.
Rauði krossinn á Íslandi greiðir styrkinn beint á reikning styrkþega innan 30 daga frá samþykkt styrkveitingar í samræmi við greiðslubeiðni frá úthlutunarnefndinni. Fjármagnið er eingöngu greitt inn á reikning lögpersónu en ekki persónulegan reikning einstaklings.
Meðhöndlun persónuupplýsinga
Persónugreinanlegar upplýsingar koma fram með eftirfarandi hætti:
- Í umsókn skal koma fram heiti lögpersónu og nafn, kennitala, símanúmer og netfang ábyrgðaraðila verkefnis.
- Ekki er farið fram á nöfn, kennitölur eða persónugreinanlegar upplýsingar um það fólk sem nýtir sér þau verkefni sem styrkir eru veittir til. Skráningar og mælingar miðast við fjölda, ánægjukannanir og önnur ópersónugreinanleg gögn.
- Allar umsóknir, bæði þær sem eru samþykktar og þær sem er hafnað eru varðveittar þangað til lokaskýrsla verkefnisins Þróttur Grindvíkinga hefur verið rituð og staðfest af gefanda fjármagnsins. Miðað er við að persónugreinanlegum gögnum verði eytt fyrir 31. desember 2026.
Ábyrgð
Umsækjandi ábyrgist að þær upplýsingar sem koma fram í umsókninni séu sannar og réttar. Heimilt er að krefjast endurgreiðslu ef fram koma upplýsingar um að málsatvik hafi ekki verið í samræmi við þær upplýsingar sem komu fram í umsókn.
Stjórn Rauða krossins á Íslandi ber ábyrgð á skráningu og meðferð fjármuna í samræmi við lög félagsins og lög frá Alþingi um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri (nr. 119/2019).
Úthlutunarnefnd ber ábyrgð á því að farið sé með persónugreinanlegar upplýsingar í samræmi við lög frá Alþingi um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (nr. 90/2018).
Gildistími
Verklagsreglurnar taka gildi fimmtudaginn 17. október 2024 og gilda til 31. ágúst 2026. Reglurnar verða endurskoðaðar á sex mánaða fresti.